— GESTAPÓ —
Anna Panna
Heiðursgestur.
Dagbók - 5/12/06
Um tilgang og tilgangsleysi svefnleysis

Mér fannst vera kominn tími á félagsrit og hafði svosem nægan tíma til að skrifa eitt innihaldsríkt og skemmtilegt en endaði samt á því að skrifa þetta hér.

Það er skrítið að geta ekki sofið. Svefn er eitthvað sem allir þurfa, þótt enginn viti hvers vegna, og það er vont að fá ekki það sem maður þarf. Ég virðist einmitt vera að sigla inn í svefnleysistímabil enn einu sinni en undanfarin ár hafa svona tímabil komið upp öðru hvoru og staðið í mislangan tíma, yfirleitt bara nokkra daga en stundum upp í nokkrar vikur.

Fyrst reyndi ég allt til að sofna; heitt og róandi te, hituð mjólk, heitt bað (heitt á greinilega að vera róandi!), náttúrulyf, náttúruhljóð, svefngrímu (ef það var sumar) og ýmislegt fleira. Fæst af því virkaði. Eftir að hafa talað við lækni sem neitaði að skrifa upp á svefnlyf (sagði að ég væri of ung til að fá svoleiðis (þetta var fyrir löngu síðan)) ákvað ég að ef líkaminn vildi vera vakandi þá skyldi ég bara vera vakandi, ég hef nefnilega mjög lítinn sjálfsaga og leyfi mér oftast að gera það sem ég vil.
Og síðan þá hef ég farið í gegnum þessi tímabil svefnleysis án þess að reyna nokkuð til að koma í veg fyrir þau og finnst það eiginlega bara æði. Ég er nefnilega næturdýr í eðli mínu og þótt þetta 9-5 samfélag okkar hafi næstum náð að berja það niður þá líður mér afskaplega vel á nóttunni þegar ég vaki svona.
Yfirleitt reyni ég að lesa, skoða nýjungar á gagnvarpinu eða horfa á dvd (einhverra hluta vegna finnst mér það hálf róandi að horfa á ofbeldisfullar og blóðugar myndir á nóttunni) en á meðal þess sem ég hef tekið mér fyrir hendur eru einstaklega nýtískulegar hárgreiðslur og förðun í stíl (klippti í eitt skiptið á mig topp því það var svo langt síðan ég var með topp síðast að ég mundi ekki hvernig ég leit út með svoleiðis), tekið alla venjulega t-boli sem voru í fataskápnum mínum og gert tilraunir til að búa til eitthvað flottara úr þeim með bitlaus skæri og öryggisnælur að vopni, geisladiska-dómínó, skrúfað vídeótækið mitt í sundur og skoðað innvolsið, farið út að skokka (þótt ég hafi aldrei gert það áður eða síðan), gert lista yfir hitt og þetta í lífinu og ýmislegt fleira. Og ég á örugglega eftir að gera eitthvað meira!
Málið er bara að þegar maður leggst niður og sofnar þá missir maður af þessum tíma. Þetta er það næsta sem maður kemst því að vera einn í heiminum, engin hljóð nema í einstaka fugli þegar sólin er komin upp. Ég er alveg til í að fórna nokkrum nóttum fyrir gæðatíma með sjálfri mér, ég veit alveg að þetta er tímabil sem gengur yfir og að einn góðan veðurdag (eða kvöld) kemur svefninn minn aftur og allt verður í stakasta lagi.
En þangað til er ég auðvitað ómöguleg í vinnu og í skóla, er t.d. að fara í próf á morgun (á eftir) og verð bara að vona að ég sofni ekki fram á borðið. Það er alveg satt sem er sagt í Fight Club (sem er ein af uppáhalds næturmyndunum mínum); When you have insomnia, you're never really asleep... and you're never really awake.
En nóttin var þess virði, ég sá fallega sólarupprás og upplifði kyrrð næturinnar og það er nóg fyrir mig.

Góðan dag kæru Gestapóar!

   (13 af 21)  
5/12/06 08:00

Offari

Góða nótt.

5/12/06 08:00

Billi bilaði

Það var einmitt frétt í blaðinu í morgun um eitthvað segultæki sem framkallar djúpsvefn og á víst að nýtast svefnleysingjum í framtíðinni.

En annars, Góðan dag!

5/12/06 08:01

Útvarpsstjóri

Góðan daginn.

5/12/06 08:01

krossgata

Góðan daginn. Ég vona að þetta rugl á svefninum hafi ekki neinar neikvæðar afleiðingar fyrir geðheilsuna. Svona tímabil hjá mér þýðir venjulega að ég verð snargeðveik (kannski pínu ýkt) og gjörsamlega óhæf til sambúðar.

5/12/06 08:01

Anna Panna

Já svefn og geðheilsa eru nátengd fyrirbæri, ég hef einu sinni fundið að ég væri að verða eitthvað skrítnari en venjulega en það var eftir rúmar 3 vikur af 2-3 tímum á nóttu. Það var mjög merkileg upplifun!
Þá fékk ég reyndar væg svefnlyf hjá manneskju sem ég þekki og lá svo sofandi í næstum sólarhring.

5/12/06 08:01

Grágrímur

Ég vaki líka yfirleitt á næturnar og kannast vel við margt sem þú skrifar.
En annars er merkilegt að ég fæ alltaf svefnleysisköst þegar mér leiðist, ekkert að gerast, og maður er með engum, og heilinn ákveður að maður megi ekki missa af sekúndubroti af leiðindumum...

5/12/06 08:01

Vladimir Fuckov

Miðað við hvað vjer vitum um marga nátthrafna (vjer erum einn slíkur) er stórfurðulegt hvað þetta nátthrafnafjandsamlega 9-5 samfjelag er Anna nefnir er allsráðandi. Það ber að afnema strax, sbr. eftirfarandi:

http://www.baggalutur.is/gestapo/profile.php?mode=viewprofi le&u=176&n=738

http://www.baggalutur.is/gestapo/profile.php?mode= viewprofile&u=595&n=378

Auk þess ætti að afnema tímabelti líka og útrýma þannig sk. flugþreytu og því svefnrugli er henni fylgir.

5/12/06 08:01

hvurslags

Ég yrki þegar ég er andvaka.

5/12/06 08:01

krossgata

Ég tók strax eftir númerum félagsritanna sem Vlad vísar til: 738 og 378. Tilviljun?

5/12/06 08:01

Offari

Talaðu bara við Vímus hann væri vís með að eiga eitthvað sem hentar þér.

5/12/06 08:01

Þarfagreinir

Mér finnst fínt að vaka á nóttunni - það er rólegur tími. Hins vegar hef ég sárasjaldan lent í erfiðleikum með að sofna.

5/12/06 08:01

Amma-Kúreki

Komst þú nokkuð óséð í lyjaskápinn hjá Vímusi ?
þessi lýsing er voða kunnuleg

5/12/06 08:01

Carrie

Kyrrðin á nóttunni er einstök. Til hamingju með að njóta hennar.

5/12/06 08:02

Blástakkur

Hefurðu prófað að hlusta á 9-5 með Dolly Parton?

5/12/06 08:02

Vímus

Þetta er nú aldeilis eitthvað sem ég þekki.
Það er djöfullegt að fá svona svefnleysisköst þegar maður verður að haga lífinu eftir klukku þá meina ég að vakna kl. 8 og mæta í vinnu eða skóla.
Í dag þá sofna ég þegar ég þarf þess og vakna þegar nóg er komið. Það hefur sína kosti og galla. Stærsti gallinn við slíkt munstur er hættan á að einangrast og missa af ýmsu sem þarf að gera gera á t.d. skrifstofutíma. Annars nýt ég þess vel að vaka um nætur og það er staðreynd að hugarfarið er öðruvísi og mun geggjaðra á þeim tíma. Maður fær ýmsar frábærar hugmyndir sem á heldur betur að framkvæma en eftir að hafa sofið þykir manni þær oft algjör fyrra. Ég vaki oft í 3 - 4 sólarhringa og þá er ég oft kominn í svo geðveikislega notalegt ástand að ég tími ekki að sofna. þá er ekki til neins fyrir mig að skófla í mig rohypnol eða öðrum svefnlyfjum. Líðanin verður bara betri. Það eina sem virkar á mig í slíku ástandi er hass. Nú er ég aftur á móti að reykja gras og það getur haft þveröfug áhrif. Að vísu er ég að skófla í mig lyftidufti og með þessu drekk ég vodka.
Er furða þó Vímus sé ruglaður?

5/12/06 09:01

Jóakim Aðalönd

Ég hef alla mína tíð glímt við svefnleysi og svefntruflanir og svarið er eitt orð: Imovane. Það er lyf sem svínvirkar á mig alla vega og engin eftirköst eða hjáverkanir.

5/12/06 09:01

Heiðglyrnir

Nóttin hún er tíminn, þá fara svefnlausir á stjá... Rammm-Íslenska alltof-bjarta sumarnóttin er alveg ótrúlega vond til svefns.... Best er að vaka allt sumarið og sofa svo örlítið á veturnar. Eða vera erlendis á sumrin og njóta myrkursins Úje.

5/12/06 09:01

Regína

Það er líka gott að gera eins og Anna gerir: Vaka þangað til maður sofnar. Það er alger óþarfi að svekkja sig á að geta ekki sofið á skikkanlegum svefntíma. Það er verra að geta ekki vakað þegar á að vaka.
Og Grágrímur, hvort sem þér líkar betur eða verr þá er þessi andvaka og leiðindi sem þú lýsir merki um þunglyndi. En ef það stendur alltaf stutt (fáeina daga) þá er alveg hægt að bíða það af sér.

5/12/06 09:02

Grágrímur

Jamm, það er rétt, ég hef haft einkenni þunglyndis síðan ég var barn, en aldrei látið það ná tökum á mér, alltaf sagt mér að það hafi það margir verra en ég (sem er reyndar svoldið niðurdrepandi) og ég hef yfir engu að kvarta... hefur virkað vel til þessa.

5/12/06 10:00

Vímus

Jóakim! Það eru margir sem nota imovane með góðum árangri svo og stilnokt sem er náskyllt. Ein af mögulegum aukaverkun imovanes er remmubragð. Ég gat ekki notað það helvíti af þeirri ástæðu. Tært og svalandi kranavatnið varð það bragðversta vatn sem ég hef smakkað.

5/12/06 12:01

Jóakim Aðalönd

Það er nefnilega það. Ekki fékk ég þá hjáverkun sem betur fer.

Anna Panna:
  • Fæðing hér: 5/5/04 12:08
  • Síðast á ferli: 16/12/23 11:57
  • Innlegg: 4727
Eðli:
Óeðlileg í flesta staði.
Fræðasvið:
Nýliðun í sögu Bagglýska heimsveldisins og innflytjendafræði.
Æviágrip:
Anna Panna Pottfjörð endurfæddist á dimmu haustkvöldi í rigningu og roki og verður ævin ágripuð eftir þörfum.
1. ágrip: Eftir þokukennd ár í landi Ísa gerðist fröken Panna hluti af útrásarher bagglýska heimsveldisins í Danmörku.
2. ágrip: Fæst nú einnig með háskólagráðu