Frétt — Enter — 9. 11. 2001
Flugbrautin á Höfn fallin í hendur Færeyinga
Færeyingar á spjalli við bæjarstjórn Hafnar

Færeyingar lýstu því yfir rétt í þessu að þeir hefðu náð flugbrautinni utan við Höfn á sitt vald eftir litla mótspyrnu af hálfu heimamanna og jafnframt hafið sókn inn í bæinn sjálfan, en það hefur ekki fengist staðfest af óháðum aðila.

Höfn, sem er á landinu austanverðu, er hernaðarlega mikilvæg en um hana liggur svonefndur hringvegur. Reynist hún vera fallin úr höndum Íslendinga telst það mikill ósigur. Opnar það fyrir birgðaflutninga til hersveita Færeyinga sem hafast við á Skeiðarársandi.

Öyvind Laufsteinn, lautinant í her Færeyinga, hringdi í Baggalút og kvaðst tala úr gervihnattasíma úr fjallshlíð með útsýni yfir Vatnajökul. Sagði hann 500 stríðsmenn Færeyinga á leið inn í bæinn og létu þeir ófriðlega.

Talsmaður utanríkisráðuneytis var fáorður um málið, sagði ráðuneytið í fyrsta lagi ekki búa yfir óháðri vitneskju um áreiðanleika fregnarinnar og í öðru lagi að fólk ætti ekki að trúa öllu því sem það les á netinu.

Elsku Aitken okkar,

láttu ekki svona. Komdu aftur tll okkar. Við getum þetta ennþá! Endurkoma Rick Ashley verður ekki söm án þín! Plís, hringdu.
- Þínir vinir að eilífu,
Stock og Waterman

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Frétt — Enter — 8. 11. 2001
Skjár 1 hefur útsendingar á arabísku
Beðið er með eftirvæntingu eftir útsendingu Skjás Eins

Í ljósi velgengni Al-Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar í Katar hefur íslenska sjónvarpsstöðin Skjár einn ákveðið að hefja útsendingar á arabísku í mið-austurlöndum. "Þetta er eðlilegt framhald, við verðum áfram ókeypis og við erum þegar komnir með fjársterka aðila á bak við okkur - má nefna að Rúmfatalagaerinn mun auglýsa lök og Össur sér þarna mikil tækifæri í gervilima- og stoðtækjabransanum," sagði Árni Þór, sjónvarpsstjóri, brattur.

"Við verðum mikið til með sömu þættina - við reiknum með að Survivor muni njóta vinsælda, en ekki síður okkar eigið efni s.s. djúpa laugin, þar sem strákarnir munu velja einn af þremur hópum stelpna til að fara á stefnumót með. Eins mun Vala Matt fara um átakasvæðin og skoða skemmtilegar útfærslur á uppbyggingu svæðisins. Mótor mun fókusera á hergagnaiðnaðinn og loks höfum við þegar sent Johnny National af stað til að ná einkaviðtali við Bin Laden og sprella soldið í honum," sagði Árni ennfremur og virtist nokkuð bjartsýnn.

Frétt — Númi Fannsker — 8. 11. 2001
Öllum flugumferðarstjórum sagt upp, sjúkraliðar hefja störf á nýjum vettvangi
Sjúkraliðar fá tilsögn í stjórn flugumferðar

Öllum flugumferðarstjórum hefur verið sagt upp að sögn flugmálastjóra. Í þeirra stað hafa verið ráðnir 230 flugliðar sem munu hefja störf að lokinni grunnþjálfun innan nokkurra daga. "Jú við tókum eftir því að sjúkraliðar voru lítið að gera þessa dagana svo við ræddum hugmyndina við Kristínu formann og henni leist náttúrulega vel á þetta. Sjúkraliðar hækka verulega í launum við þetta og launakostnaður okkar lækkar umtalsvert. Allir eru sumsé ánægðir, nema kannski flugumferðarstjórar (hahaha)", sagði Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri. Landspítalinn hefur boðið flugumferðarstjórum vinnu og að sögn talsmanns samninganefndar þeirra er það mál í athugun.

Frétt — Númi Fannsker — 8. 11. 2001
Hafþór Hübner lætur enn til skarar skríða
Hafþór við störf sín

Hinn umtalaði hugsjónahakkari, tölvubófi og fjárglæframaður, Hafþór Ellert Hübner, hefur enn látið til skarar skríða gegn stóru tölvukerfi á Íslandi. Frægt varð þegar Hafþór tók rafmagnið af öllu stjórnarráðinu í fjóra sólahringa fyrir áratug, og einnig þegar hann braust inn í tölvukerfi Reykjavíkurborgar og hækkaði laun grunnskólakennara nú í vor.

Í þetta sinn tókst Hafþóri að eiga við launakerfi Eimskipa, og lækkaði laun yfirmanna niður í grunnlaun tónlistaskólakennara.

"Ég er búinn að fá átta fíleflda, fullorðna karlmenn inn á teppi til mín í dag og í gær, hágrátandi út af þessu - svona gerir maður bara ekki, þessi maður er hreint illmenni!" sagði Hansína Helgadóttir, starfsmaður á launaskrifstofu Eimskipa.

Skemmdarverkin hafa nú verið leiðrétt og var þeim starfsmönnum sem urðu fyrir barðinu á Hafþóri boðið í fjölskyldugarðinn nú upp úr hádegi í sárabætur.

Nærgætin

stúlka óskast á gott heimili í Vesturbænum. Þarf að hafa reynslu af umönnun og umhirðu urðarkatta.

Frétt — Númi Fannsker — 7. 11. 2001
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði fær óvæntan glaðning frá kollega sínum í Texas
Einar sýslumaður við nýju mubbluna.

Einar Sivertsen, sýslumaður í Hafnarfirði, fékk óvæntan glaðning í ábyrgðarpósti frá kollega sínum í Texas. Um er að ræða stól af gerðinni „Old Sparky“, en hann mun einkum vera ætlaður í refsingarskyni fyrir allkræfa glæpamenn.

„Ég var á ferðalagi þarna í hitteðfyrra og sá þá svona stól hjá Barney Crustville, sýslumanni í Humbuck county í Texas. Ég var nú svona eitthvað að dást að gripnum og hann sagðist nú eiga nokkra og vildi gefa mér hann þar og þá. Ég sagðist nú ekki geta staðið í að borga yfirvigt auk þess sem ég vissi ekki hvurnig hann passaði við nýjar innréttingar í húsnæði sýslumannsembættisins. Barney sagðist þá myndu senda mér stólinn við tækifæri. Við höfum nú komið honum fyrir hérna í móttökunni og hann bara smellpassar við þemað hérna,“ sagði Einar sýslumaður um málið.

Búist er við að stóllinn verði fyrst um sinn notaður við innheimtuaðgerðir á vegum hins opinbera.

Frétt — Númi Fannsker — 7. 11. 2001
Tónlistarmaðurinn Insol gerir tímamótasamning
Insol er þenkjandi maður með djúpan skilning á nýal

Tónlistarmaðurinn Insol hefur gert tímamótasamning við útgáfufélagið EMI í Bandaríkjunum um útgáfu á nýjustu breiðskífu hans, Flower of Pain, sem m.a. inniheldur lagið "When will an official star-connection-base rise here in Iceland?" Verkið kemur út í 18 löndum víðsvegar um heiminn og verður því fylgt eftir með hljómleikaferð "Insol 2002 Rainbow tour", sem hefst í heimabæ listamannsins, Seljavík, snemma á næsta ári.

Frétt — Enter — 6. 11. 2001
Leynilegt tónlistarhús opnað í nótt
Björn er laginn við að klippa á borða

Björn Bjarnason menntamálaráðherra opnaði í nótt formlega nýtt tónlistarhús. Nýbyggingin er hin fyrsta af átta "óvæntum" húsum sem ráðgert er að reisa um allt land í vetur og gera áætlanir ráð fyrir að önnur byggingin rísi á næstu dögum - þó enn sé ekki vitað hvar. Með tilkomu nýju byggingarinnar margfaldast stærð húsnæðis Tónlistarskóla Reykjavíkur og fer úr 50 fermetrum í 8 þúsund fermetra.

Fram kemur á heimasíðu skólans, að fjöldi stúdenta hafi meira en þrefaldast á þeim áratugum sem skólinn hafi verið starfræktur. Við stofnun skólans voru stúdentar um 4, en nú haustið 2001 var fjöldi þeirra sem hófu nám um 12.

"Það er bara svo gaman að sjá svipinn á þeim," sagði Björn í samtali við Baggalút: "Við erum búnir að halda þessu leyndu fyrir tónlistarfólki og þóst ekkert ætla að gera í málunum. Svo bara skellum við þessu upp á nokkrum dögum - þetta er alveg magnað," sagði Björn ennfremur og bætti við að erfiðast hefði verið að halda þessu leyndu fyrir konunni sinni - "...en það var svo sannarlega þess virði."

Bleik ský

Lítið notuð bleik ský til sölu. Svífa 5–10 metra, halda 100 kg.

Frétt — Númi Fannsker — 6. 11. 2001
Númi Fannsker tekur þátt í mótmælum Alþjóðasjúkraliðafélagsins
Númi er fyrir miðri mynd (rauð ör)

Hinn geðþekki fræði- og hugsjóna-maður, Dr. Númi Fannsker, tók um helgina þátt í mótmælagöngu Alþjóðasjúkra-liðafélagsins, sem gengin var í Punjab í Indlandi. Birtist af þessu tilefni meðfylgjandi mynd af honum á forsíðu Punjab Weekly, fréttablaðsins. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem mynd birtist af Íslendingi á forsíðu jafnvíðlesins tímarits! Baggalútur er afar stoltur af Núma, sem er einn af frumkvöðlum íslenskrar nútímamenningar og starfsmaður Baggalúts til margra ára. Númi var staddur í Punjab ásamt formanni sjúkraliðafélagsins, Kristínu Á. Guðmundsdóttur og Ögmundi Jónassyni, þingmanni, til að mótmæla kjörum íslenskra sjúkraliða og þeirri meðferð sem þeir sæta hjá samninganefnd ríkisins þessa dagana. Ögmundur sagðist sannfærður um að fundur þessi skilaði miklu í baráttu Sjúkraliðafélagsins. Ferðin var greidd af ríkissjóði. -NF

Frétt — Enter — 6. 11. 2001
Perlan seld úr landi
Perlan mun án efa sóma sér betur annars staðar

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í morgun að selja Perluna, sem nú stendur á Öskjuhlíð, úr landi.

"...við erum bara orðnir leiðir á henni, svo einfalt er það - auk þess er maturinn þar ekkert spes og útsýnið svona lala," sagði Tumi Theodórsson, formaður árshátíðarnefndar O.R.

Ekki er enn ljóst hvert Perlan fer, en geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, mun hafa sýnt byggingunni mikinn áhuga og eins alþjóðlegt samtök áhugamanna um astrófýsísk fræði og gjörkosmískar megineigindir (FARAN).

"Auðvitað eiga einhverjir eftir að sakna kofans, ég veit að Davíð Oddsson er pínu spældur, en það er annað hvort þetta eða að ganga í hús og selja klósettpappír - fólk getur svo alltaf farið bara í keilu í staðinn, þar er líka meira skjól," sagði Tumi að lokum.

Frétt — Spesi — 5. 11. 2001
Öryggisgæsla hert við íslenskar kýr
Huppa má vara sig á næstunni

Öryggisgæsla hefur verið hert við kýr á suðurlandi eftir að fréttir bárust um áform færeyskra hryðjuverkamanna um að beita eina þeirra kynferðisofbeldi. Grani Davíðsson, bóndi á Neðri-Skolti, sagði í gærkvöldi að sýslumaður hefði fengið "trúverðuga hótun" um að reynt verði yfir helgina að leita á búfénað á Hellu, Hvolsvelli eða Kirkjubæjarklaustri.

"Besti viðbúnaðurinn er að láta hryðjuverkamennina vita, að við vitum hvað þeir ætlast fyrir. Við erum viðbúnir. Þetta mun ekki takast," sagði Grani hróðugur á blaðamannafundi í gær.

Talsmaður Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra sagði að hótunin væri óstaðfest og ekki eins trúverðug og sú sem leiddi til allsherjarviðvörunar fyrr í vikunni, en hún var byggð á hótun sem beindist aðallega að kindum.

Grani sagði að hótunin beindist að Skjöldu á Hellu, Klöru á Hvolsvelli og verðlaunatarfinum Bola á Kirkjubæjarklaustri.

Frétt — Enter — 5. 11. 2001
Sharon tekur múhameðstrú
Sharon og Khatami í góðum gír við athöfnina

Það kom nokkuð á óvart þegar Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, tilkynnti samstarfsfólki sínu nú um hádegið að hann hefði tekið múhameðstrú og segði hér með starfi sínu lausu.

Svo virðist sem Sharon hafi fyrir tilviljun lent í gleðskap hjá gömlum félaga sínum, Mohammad Khatami, forseta Írans, sem hafi endað með því að Sharon sneri til íslamstrúar. "...í einhverju flippi." eins og hann orðaði það í samtali við fréttaritara Baggalúts í Tel Aviv.

"Æ, ég var líka orðinn hálf leiður á öllu þessu veseni - arabarnir, vinir mínir, voru orðnir hálf pirraðir á mér - held ég. Þetta er búið að vera vanþakklátt starf, og ég vil miklu frekar geta einbeitt mér að því sem ég hef raunverulegan áhuga á - en það eru kamelkappreiðar," sagði fráfarandi forsætisráðherra Ísraels, Ariel Sharon, að lokum og hagræddi vefjarahettinum.

        1, 2, 3 ... 379, 380, 381, 382, 383  


§ ÚR SAFNI BAGGALÚTS:
ÚR SAFNI — 27. 12. 2001 — Númi Fannsker

Ísraelskir hermenn handsömuðu á jólanótt þrjá grunsamlega náunga nálægt varðstöð utan við Bethlehem. Mennirnir voru á leið inn í borgina …

»MEIRA

ÚR SAFNI — 14. 8. 2003 — Enter

Áratugum saman hafa gengið sögur meðal borgarbúa um að í Öskjuhlíð leynist ýmsar óvættir, s.s. kanínur, villisvín og kynvillingar. Þetta …

»MEIRA

ÚR SAFNI — 10. 9. 2003 — Enter

Þýskur landslagsarkitekt, Harry Mullenhoff, hafði í gær samband við íslensk lögregluyfirvöld og krafðist úrlausnar á sínum málum, en hann heldur …

»MEIRA

LESBÓK — Myglar — Dagbók
 
LESBÓK — Enter — Dagbók
 
ÚR SAFNI — 29. 1. 2010 — Númi Fannsker

Varúlfarnir sem gengu á land í Hafnarfirði í morgun, hafa verið felldir. Lögreglan í Hafnarfirði tók ákvörðun um að fella …

»MEIRA

ÚR SAFNI — 2. 10. 2007 — Númi Fannsker

Íslenskur stærðfræðingur, Hermann Gunnbjörnsson, hefur sannað tilvist pulsu með öllu, með óhrekjanlegum stærðfræðilegum aðferðum. Hermann kynnti niðurstöður sínar í fyrirlestri sem …

»MEIRA

ÚR SAFNI — 29. 5. 2012 — Myglar

Átakinu Jóðlað í vinnuna, sem staðið hefur yfir í nokkrar vikur, er nú um það bil að ljúka. Nokkuð hefur …

»MEIRA

LESBÓK — Myglar — Dagbók
 
LESBÓK — Enter — Forystugrein
 
ÚR SAFNI — 12. 8. 2002 — Enter

Atli Hermóðsson, kortagerðamaður, var í dag handtekinn á flugvelli í Malasíu, þar sem hann var á flótta undan réttvísinni ásamt …

»MEIRA

ÚR SAFNI — 29. 11. 2012 — Herbert H. Fritzherbert

Guðmar Ólason, sextugur starfsmaður KPMG á Íslandi, hefur þróað með sér persónuleika. Persónuleikinn er framkallaður með ígræddum örgjörva stýrt af …

»MEIRA

ÚR SAFNI — 12. 12. 2003 — Spesi

Ungur bifvélavirki, Agnar Glúmsson (30), varð fyrir því að festa tvo útlimi í vél bifreiðar sem hann var að vinna …

»MEIRA