Frétt — Spesi — 1. 8. 2002
Geir í kröppum dansi
Geir Ólafssyni er ýmislegt til lista lagt

Söngvarinn góðkunni Geir Ólafsson hefur valdið miklu fjaðrafoki vegna útvarpsefnis sem hann hyggst senda í loftið á næstunni. Er hér um að ræða þáttaröð þar sem meðal annars verður fjallað um ævi söngvarans Frank Sinatra.

"Já, ég mun ljóstra upp ýmsu í þessum þáttum, eins og því að Frank var í mafíunni," sagði Geir glaðbeittur í spjalli við Baggalút. "Svo var hann líka í rauninni tenór, en útgáfufyrirtækin létu hægja á upptökunum til að hann hljómaði dýpri, enda var það í tísku þá."

Í kjölfar þessa hefur síminn ekki stoppað hjá Geir. "Já, það hefur alls kyns fólk verið að hringja í mig. Sá síðasti sagðist vera að vinna á einhverju sem hann kallaði Klepp. Held hann hljóti að vera blaðamaður, því hann var eitthvað að tala um að fá mig í viðtal," sagði Geir að lokum.

Góð telpa

óskast til að gæta bjarndýrs. A.v.á.

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Nýjustu fréttir: