Frétt — Enter — 18. 3. 2011
Neitar að hafa ofsótt Gossip-girl stjörnu
Ingibirna kallar fátt, ef nokkuð, ömmu sína í karlamálum.

Ingibirna Ingibjarnar, djammdrottning og fyrrum ungfrú Kollafjörður, þvertekur fyrir að hafa elt Gossip-girl stjörnuna Ed Westwick á röndum í miðbæ Reykjavíkur og reynt með öllum ráðum að fá hann til fylgilags við sig og vinkonur sínar.

„Það var miklu fremur hann sem var að elta okkur, daðrandi og flaðrandi upp um okkur og káfandi í hverri glufu, másandi eins og kjölturakki.“

Þá blæs hún á raddir sem segja hana hafa dregið Westwick nauðugan viljugan upp á hótelherbergi og boðið honum upp á „þeytivinduna“ svokölluðu.

„Þetta er eintómt kjaftæði, ég var bara að reyna að forða þessu greyi frá því að vera rifinn í sundur af einhverju skríkjandi smástelpugeri sem hélt hann væri Johnny Depp. Ef þetta hefði verið Derrick eða J.R. hefði ég kannski látið slag standa, en þetta nýmóðins hollívúddlið getur nú bara troðið sínum káfkrumlum upp í háskerpuna á sér.“

Spennandi ferðir

um holræsakerfi stærstu borga Norðurlanda. Sjáðu rottur í þeirra náttúrulega umhverfi! Nýjar og spennandi uppgötvanir frá Bergen til Esbjerg!
-Lúdóferðir-

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Nýjustu fréttir: