Frétt — Enter — 12. 10. 2009
Valdarán
Valdaræninginn krafðist þess að vera ávarpaður hans æruverðuga hátign, Stebbi I.

Karlmaður á fimmtugsaldri lét til skarar skríða snemma í morgun og framdi valdarán.

Í tilkynningu frá manninum sagði að með athæfinu væri hann að brjótast undan langvarandi kúgun fyrri valdhafa og ná fram langþráðu réttlæti og virðingu – þó ekki væri nema um stundarsakir.

Ránið var fremur smátt í sniðum, en það fólst í því að læsa svefnherbergisdyrum aldraðrar móður valdaræningjans og sturta lyklinum niður um salernisskál – auk þess að kefla afar orðljótan páfagauk, sem þjónaði hlutverki áróðursmeistara á heimilinu.

Uppreisnin hefur nú verið brotin á bak aftur.

Útfrymi

Þarf vegna lífstjörnuflutninga að losa mig við mikið magn útfrymis. Tilboð óskast.
Gísli miðill.

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Nýjustu fréttir: