Lögreglan í Hafnarfirði hefur nú í haldi hóp manna sem talið er að hafi stundað ólöglegar hvalveiðar hér við land um árabil.
Við húsleit hjá einum hinna grunuðu fundust tvær niðurskornar steypireyðar ásamt um tylft búrhvala og nokkurra hnísna. Þá er einnig talið að félagarnir hafi stundað brottkast á hundruðum hvala auk ísbjarna og rostunga sem þeir hafa ekki séð sér fært að hafa heim í soðið sökum tíma- eða plássleysis.
Erfitt getur þó reynst að sakfella mennina, því svo virðist sem einungis veiðar í vísindaskyni og atvinnuveiðar séu bannaðar - sportveiðar hafi á hinn bóginn alltaf verið leyfilegar.
Frá Fiskistofu
Gildi hefur tekið reglugerð nr. 132.b.11.2008, um bann við áti á öðru meðlæti en kartöflum með eftirfarandi fisktegundum: Ýsu, þorski, ufsa, loðnu, skarkola, steinbít og krossfiski.
Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.
Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:
Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.
Góðar stundir.