Lesbók09.12.02 — Númi Fannsker

Senn líður að því að endanleg ákvörðun verði tekin um hvort Kárahnjúkavirkjun rísi. Ákvörðunin er ekki íslenskra stjórnmálamanna - þeir hafa fyrir löngu gert upp hug sinn, hún er ekki Landsvirkjunar og því síður hinnar íslensku þjóðar.

Nei - endanleg ákvörðun er amerísku stóriðjunnar Alcoa. Þeir sem þar ráða eru að gera upp hug sinn og hyggjast greina frá ákvörðun sinni í janúar. Þegar hún liggur fyrir eru allar líkur á að ráðist verði í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar.

Þetta veltur sumsé allt á því að reist verði Álverksmiðja við Reyðarfjörð. Sú orka sem til yrði í stærstu virkjun landsins yrði öll nýtt til að framleiða ál fyrir amerískt stórfyrirtæki - öll! Það þýðir sumsé að 100.000.000.000 króna (eitthundraðþúsundmilljónir) verða lagðar í að útvega einni verksmiðju rafmagn - verksmiðju sem veitir sjöhundruð sálum austfirskum störf, eða a.m.k. austurevrópskum. Þetta er gert til að treysta byggð á Austfjörðum og náttúrulega skapa hagvöxt eins og öll stórvirki ríkisstjórnarinnar.

Ungt fólk austurlenskt hættir þá sjálfsagt að flykkjast til höfuðborgarinnar og útlanda, hættir að mennta sig í nokkru öðru en því sem nýst getur í áliðnaði og snýr allt vongott og bjartsýnt heim til Reyðarfjarðar, Eskifjarðar - Stöðvarfjarðar jafnvel! - svo það geti unnið í amerískri risaverksmiðju.

Áhrifanna myndi gæta allsstaðar í austrænu samfélagi: 10-11 myndu sennilega opna verslun í Breiðdalsvík þar sem ynnu allt að fjórir starfsmenn. Bensínstöðin á Reyðarfirði þyrfti jafnvel að bæta við hálfu stöðugildi, og höfnin - hafnarlífið myndi blómstra þar sem tveir og jafnvel þrír lyftaramenn gætu haft af því fulla atvinnu að moka áli um borð í skip.

Reyndar yrði þetta líka til þess að bæta þyrfti nokkuð úr læknisþjónustu, leikskólaþjónustu, skólastarfi, félagsþjónustu, löggæslu o.s.frv - en fjárveitingar hljóta að fást til þeirra verkefna, við búum jú í velferðarþjóðfélagi.

Það er sorglegt til þess að hugsa að stórkostleg lán verði færð á reikning barnanna okkar svo sjöhundruð austfirskir verksmiðir geti puðað í þrælakistu amerísks auðvalds. Það er beinlínis ljótt. Fyrir utan þetta eru svo umhverfisáhrifin, sem eru af svo galinni stærðargráðu að gera þarf þeim grein í öðrum pistlingi.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182