Lesbók28.08.02 — Enter

Púff. Var rétt í þessu að renna í hlað eftir mikla ævintýraför.Fíflið hann Spesi kom að Núma Fannsker inni á kaffistofu í morgun, slefandi og hálf rænulausum, en gerði ekkert til að vekja kallgreyið svo hann missti af fluginu til Spánar. Þegar ég svo mætti var kappinn vaknaður, hágrátandi og nýbúinn að hella upp á 'kaffi' sem samanstóð af uppþvottalegi og ljósritunartóner.

Nújæja, eftir að hafa hringt út á völl og sannfært einhverja símamelluna um að flytja farmiðann hans yfir í síðdegisflugið - reyndar ekki til Spánar heldur Sviss -tókst mér með lagni að moka Núma upp í horgræna Volvohræið hans og ók svo í hendingskasti upp á Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Það er nú annars ljóta helvítis hreysið. Númi hafði vitanlega ekki tímt að kaupa sér far á fyrsta farrými svo ég þurfti að standa undir honum í röð. Í röð! Ég!

Þarna máttum við dúsa í skjóli einhverrar þeirrar daunverstu kvensniftar sem ég hef augum borið. Botnmikil og sífretandi stóð hún fyrir framan okkur með óstýrilátan, sífrandi afkvæmahóp sinn, sem ítrekað reyndi að toga skeggið af Núma þar til loks tókst að afgreiða hvalinn og rúlla burt.

Var þá röðin komin að okkur. Ég tók vasaklútinn frá vitunum og brosti mínu blíðasta framan í nefsmátt og tómlegt andlit bókunarseljunnar. Ég framvísaði samankuðluðum farmiðanum ásamt vegabréfi og reif Núma upp á hárinu til að sýna að hann og apinn í passanum væru í grunninn sama lífveran. Stúlkukindin horfði efins á doktorsgráðuna á vegabréfinu síðan á uppstoppaða fatahrúguna við hlið mér. Loks blés hún gegnum ámálaðar varir ógreinilegum efasemdum um ásigkomulag Núma og hæfni hans til flugferða. Voru nú góð ráð dýr.

Ég dó þó ekki ráðalaus, þar og þá, heldur sannfærði stúlkuna um að hér væri á ferð heilabilaður náfrændi minn sem heilbrigðiskerfið hefði úthýst. Hann þyrfti því bráðnauðsynlega að komast til Sviss, því þar biði hans nýr heili - úr austurrískum línudansara. Lyktina útskýrði ég sem svo að núverandi heili yrði að liggja í spíra í sólarhring fyrir aðgerðina, annars væri öllu stefnt í voða.
Til allrar hamingju tók loftbólan í afgreiðslunni þá ákvörðun að trúa mér, brosa og flytja í þokkabót blessaða örlagabyttuna upp á fyrsta farrými. Númi var að svo búnu reyrður niður í hjólastól og honum skondrað áleiðis á vit ævintýranna.

Svona er ég góður vinur vina minna. Verst að farangurinn varð eftir í Volvóhelvítinu. Hvað um það, nú ætla ég að berja Spesa.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182