Lesbók07.11.02 — Spesi

Nýlega brá ég mér á sýningu á hryllingskómedíunni Heim í heiðardalinn (Sweet Home Alabama). Er hér um að ræða listaverk sem augljóslega er til þess ætlað að vekja sem mestan viðbjóð áhorfenda en á sama tíma að kitla hláturtaugar þeirra. Þarna eru ýmsir ófrýnilegir karakterar settir í alls kyns hryllilegar aðstæður og einnig er mikið um yfirgengilega og afar kómíska væmni.
Aðalsöguhetjan er ung kona á framabraut sem heimsækir æskuslóðir sínar til að gera upp ýmis mál í fortíð sinni áður en hún getur gefist unnusta sínum. Ekki fer þó allt eins og ætlað er og ýmsir skelfilegir atburðir setja strik í reikninginn.
Persóna aðalsöguhetjunnar verður að teljast til þeirra hlægilegustu, en jafnframt hryllilegustu, sem skapaðar hafa verið og ekki eru aðrar persónur verksins henni síðri að því leyti. Þá stóðu leikarar sig með afbrigðum vel í sköpun þessara andstyggilegu karaktera.
Í stuttu máli sagt tekst aðstandendum sýningarinnar ætlunarverk sitt fullkomlega: Hryllingur í bland við hlátrasköllin ollu því að oft lá við að ég seldi upp á vesalings parið fyrir framan mig, sem virtist ekki skilja snilldina bak við verk þetta og sneri sér ítrekað í sætinu og horfði á mig skilningssljóum augum.
Þegar heim var komið lá ég lengi andvaka og velti fyrir mér þeim viðbjóð sem ég hafði augum barið og komst að þeirri niðurstöðu að hér er á ferðinni eitt mesta snilldarverk ársins. Ég hvet alla sem áhuga hafa á því að láta hreyfa við sér á ýmsa óþægilega vegu til að sjá þetta verk áður en sýningum verður hætt.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182