Lesbók18.11.02 — Enter

Ég gerði sjálfum mér þann óleik í gær að opna fyrir ríkissjónvarpið að loknum fréttum. Birtist mér á skjánum smeðjulegur, skælbosandi Stefán Hafstein og við hlið hans sú stærsta og niðurdregnasta skeifa sem ég hef augum litið - með blátt bindi. Tilefnið - jú að rífast um eigin flokk.

Ég skil svosum vel að í þessum glundroðabúðing sem kallar sig Samfylkingu sé innbyrðis ágreiningur - gott og vel, en hvaða helberi hálfbjánaháttur er það að bera hann á borð fyrir þjóðina í beinni útsendingu?

Það þykir arfaslæm herkænska í fyrstu bekkjum grunnskóla að bítast við og herja á þá sem á annað borð mæta í afmælið manns, sérstaklega sé maður ólögulegur bekkjarbjálfinn, þjakaður og skældur af áralöngu einelti og óáran. Og þar sem ég horfði á hárfroðuna leka niður lampalegið andlit Stefáns Jóns og munnvik hins á harðaspani niður stólfæturna varð mér á orði - ekki í fyrsta sinn - 'skelfing eiga vinstri menn bágt'.

Undanfarið hefur kringilegur gustur farið um borgina. Mjóróma og skjálfandi raddir rísa úr kúguðum, kalbógnum hálsum og hvísla sín á milli hryllingssögum. Það er blá hönd sem heldur alþýðu landsins kverkataki og þröngvar henni að vegg. Það er helblár armur sem smýgur um allt og leggst sem mara á hugumprúð brjóst listfengra eldhuga þjóðarinnar og þrýstir á - svo hjörtu þeirra bresta og verða að svarbláum tárum, fordæmdum frostperlum sem enda í luktum skáp djúpt í greni þeirrar illvígustu fordæðu sem á landið hefur herjað frá upphafi - Davíðs Oddssonar.

Eruð þér kæru landsmenn fífl?

Hvurn þremilinn ætti Davíð Oddsson að vilja með spíralyktandi skeggapa og skódrullug skallaskáld inn á teppi til sín? Andsvítakornið ekki neitt! Davíð á ekkert vantalað við íslenska listamenn - ef til vill er það miður - því flestum þeirra, ef ekki öllum, veitti ekki af ærlegu tiltali og allrahelst vænum skell á beran bossann þó ekki væri nema til að venja þá af ríkissnuðinu.

Þó að hér sé haldið fram að forsætisráðherra sinni ekki listrænni sálu- og skyndihjálp er ekki þar með sagt að hann sitji auðum höndum. Hann er nefnilega, ólíkt þeim liðleskjum sem ég nefndi hér í upphafi, stjórnandi. Foringi sem heldur sínum mönnum saman á alltumlykjandi, hlýrri galdramottu. Og það sem er dýrmætt við það og heldur þessu landi frá vítisusla og þvoglu meðalmennskunnar - honum er hlýtt!

Því væri það öruggt merki um veraldarhrun og vísa glötun alls mannkyns ef forsvarsmaður Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi kæmi fram í sjónvarpi til þess eins að viðhafa munnsöfnuð og kjaftbrúk við borgarfulltrúa eigin flokks.

Ég auglýsi hér með eftir höndum:

  • grænum - til að draga heymóða framsóknarmenn aftan af úrkynjuðum, óætum rollunum og hysja upp um þá klíkubættar brækurnar
  • rauðum - til að skafa áróðursmerginn úr stífluðum eyrum grænvinstringa og þeyta þeim fram á - í það minnsta - síðustu öld
  • og loks fölbleikum til að taka upp á eyrunum þessa ónytjunga sem kenna sig við samfylkingu þó samheldnin minni einna helst á árþúsundalanga farsæla sambúð mörgæsa og ísbjarna.
Farið í friði.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182