Lesbók04.11.02 — Númi Fannsker

Sérsveit sjávarútvegs- og utanríkisráðuneyta hefur borað sér inn um bakglugga Alþjóðahvalveiðráðsins. Verði þeim að góðu.
Sá félagsskapur á lítt skylt við hvalveiðar, en er þess í stað samkoma öfgasinnaðra hvalfriðunarsinna. Fundir samkomu þessarar minna helst á aðalfund í Bavíanasamtökunum ellegar teboð hjá Félagi hálfbjána. Þessari samkomu tilheyra nú Íslendingar. Verði þeim að góðu.
Nú geta þeir leyst festar hvalveiðiskipanna, sem líklegast eru grónar við land, sé svo má skera á þær. Svo verður stefnt á haf út og fáeinir hvalir fundnir sem hægt er að rannsaka. T.d. má vigta í þeim lifrina. Svo má líka reikna út hvort þeir éta mikinn þorsk -alltsvo þeir sem ekki nærast eingöngu á svifi. Nú svo geta hvalsalar súrsað spikið af þessum skepnum og selt í Kolaportinu. Verði þeim að góðu.
Íslendingar hafa skuldbundið sig til að veiða ekki nema í vísindalegum tilgangi, þ.e.a.s. þeir mega ekki veiða meira en þeir geta með góðu móti rannsakað, fyrr en eftir heil fjögur ár! Árið 2006 geta Íslendingar sumsé veitt eins mikið og þeim sýnist og þá verður gott að búa á Íslandi. þá fyllast hér allar búðir af ljúffengu hvalaketi, húsmæður taka hvalaslátur og þegnar þessa lands þurfa ekki að óttast hungursneyð sem annars vofði yfir. Svo vilja japanir náttúrulega kaupa þessi líka lifandis býsn af hvalalundum, hvalhnakka, hvalalærissneiðum, hvalasviðakjömmum og guð má vita hvað. Verði þeim að góðu.

Ég geri ráð fyrir að fyrirætlanir um álver, báxítverksmiðjur, magnesíumverksmiðjur og lyfjaframleiðslu verði lagðar á hilluna í kjölfarið. Hvalveiðar hljóta að gefa af sér margfalt meira en slíkur heimilisiðnaður. Nú fyrir utan þau jákvæðu áhrif sem framboð á hvalketi hefur á matarmenningu landsmanna - verði þeim að góðu... verði okkur öllum að góðu.

Góðar stundir.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182