Lesbók14.10.02 — Myglar

Það var ekki laust við að mér vöknaði um augun þegar ég heyrði að Finnur Ingólfsson ætlaði að segja lausu starfi sínu sem Seðlabankastjóri og snúa til annarra starfa. Ég er að vísu sannfærður um að í hinu nýja starfi sínu mun Finnur leitast við að hjálpa lítilmagnanum og bæta kjör landsmanna allra, eins og hann hefur hingað til gert, en engu að síður verður hæfleika hans sárt saknað í Seðlabankanum.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ég hef það samkvæmt traustum heimildum að alþýðuhetjan Páll Pétursson, félagsmálaráðherra og stoð og stytta lítilmagnans, hafi samþykkt að taka starf Seðlabankastjóra að sér. Ég tel að það væri mikið gæfuspor fyrir íslensku þjóðina ef Seðlabankinn fengi svo traustan karl í brúna, enda hefur Páll allt til brunns að bera sem prýtt getur góðan Seðlabankastjóra. Hann hefur ekki einungis verið þingmaður fyrir Norðurland vestra frá 1974 og farsæll félagsmálaráðherra frá 1995, heldur hefur hann einnig gegnt fjölda annarra trúnaðarstarfa. Páll hefur t.d. verið formaður Félags ungra framsóknarmanna í Austur-Húnavatnssýslu, formaður Veiðifélags Auðkúluheiðar, formaður Hrossaræktarsambands Íslands og setið í samstarfsnefnd með Færeyingum og Grænlendingum, auk þess sem hann sat í hreppsnefnd Svínavatnshrepps frá 1970 til 1974. Öll þessi störf hefur Páll unnið af alúð og án nokkurs persónulegs ávinnings, heldur einungis landi og þjóð til heilla.

Það eina sem skyggir á gleðina nú þegar Páll Péturson er að taka við stól Seðlabankastjóra er að krafta hans mun ekki lengur njóta við í Félagsmálaráðuneytinu. Ég er viss um að margur bótaþeginn á eftir að hugsa með söknuði til þeirra dýrðartíma þegar Páll hélt hlífiskildi yfir lítilmögnum þessa lands. En sem betur fer eru fleiri verðugir kandídatar í það verkefni og horfi ég þar sérstaklega til Ísólfs Gylfa Pálmasonar, sem er skarpgáfað góðmenni og mun, ef ég þekki hann rétt, ekki víla fyrir sér að taka við því erfiða verkefni sem stjórn ráðuneytis félagsmála er.

Ég segi því, horfum stolt og bjartsýn fram á veginn, ærin er ástæðan! Heill nýjum Seðlabankastjóra, Páli Péturssyni!

Húrra, húrra, húrra, húrra!

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182