Lesbók25.03.02 — Spesi

Á laugardagskvöld brugðum við Enter okkur af bæ til að slaka á eftir erfiðan vinnudag á skrifstofunni. Álagið hafði verið gífurlegt að undanförnu þar sem ónefndir aðilar höfðu legið "veikir" heima og þurftum við því að taka á okkur alls kyns aukastörf fyrir vikið. Eins og svo oft áður lögðum við leið okkar á kvöldvöku hjá Gosum. Skemmtum við okkur þar hið besta í saklausri gleði.

Þó virðist sú gleði ekki hafa verið saklausari en svo að áður en við vitum til stendur yfir okkur sjálfasti Númi Fannsker ásamt kryppluðum vini sínum. Starði hann á okkur með þvílíkum umvöndunarsvip að ég gáði ósjálfrátt hvort skóþvengir mínir væru ekki örugglega vel hnýttir. En nei, það var ekkert að útganginum á okkur. Það sem angraði þennan sómakæra kunningja okkar var að við skyldum vera að dreypa á áfengi! Hafði hann þá lokið við sína neyslu það kvöldið og þótti ekki nógu gott að aðrir skyldu halda áfram sinni eigin neyslu. Nei, ekki var það nú nógu gott fyrir herra Fannsker!

Siðgæði þessa manns er með ólíkindum margfalt og siglir hann stöðugt undir hentifána fíknar sinnar, sem fær hann í blindni til að trúa því hann hafi einhverja stjórn á henni. HAH!

Viðskiptum okkar þetta kvöld lyktaði þannig að ég bað dyraverðina vinsamlegast að vísa siðapostulanum á dyr og urðu þeir við því, enda mér að góðu kunnir.

Mikið er leiðinlegt að þurfa að lenda í svona leiðinda atvikum með reglulegu millibili vegna vandamála og ranghugmynda þeirra sem maður kallar á góðum degi vini sína.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182