Lesbók09.09.02 — Myglar

Vegna frétta í fjölmiðlum upp á síðkastið um átök skógræktarfólks við nokkrar sauðkindur í Esjuhlíðum, held ég að nú sé rétti tíminn til að stinga niður penna og gagnrýna eilítið þá stefnu sem hér ríkir í landgræðslumálum.

Hver sá sem ferðast hefur suðurland upp á síðkastið hlýtur að hafa tekið eftir því að sandarnir sem einu sinni voru í svo miklu aðalhlutverki hafa mátt hopa fyrir einhverjum mesta óvætti sem hingað hefur komið: Lúpínunni. Lúpína, lúpína, hvert sem litið er! Þetta viðbjóðslega bláa blóm ryðst yfir allt og eirir engu. Í stað mikilfenglegra sanda eru nú komnir heilu akrarnir af þessu blómi eða einhverjum öðrum aðskotaplöntum sem ekkert erindi eiga í íslenskri náttúru. Og það eru ekki bara sandarnir sem hafa orðið fyrir aðkasti, ónei. Hvar sem því verður við komið virðast menn þurfa að gróðursetja tré, sem oftast ættu frekar heima á meginlandi Evrópu eða í henni Ameríku. Fátt er viðbjóðslegra heldur en afgirtur, ferhyrndur trjálundur í annars fagurri mosagróinni fjallshlíð. Ekkert gæti stungið meira í stúf við umhverfið, við hinn íslenska veruleika sveitarinnar.

Landgræðslusinnar halda því eflaust fram að ég sé niðurrifsseggur og afturhaldssinni, en ég get bara ekki að því gert hvernig smekk ég hef. Ég tek einfaldlega mosa og þúfur fram yfir tré. Ég vil heldur sjá sönduga eyðimörk en lúpínuakur, mér finnst eyðimörkin einfaldlega fallegri. Þegar flugvél landgræðslunnar flýgur yfir landið lít ég á það sem loftárás, ekki þjóðþrifaverk.

Auðvitað er ég ekki á móti uppgræðslu vegna landbúnaðar - ný tún sem auka við framleiðni bóndans eiga ætíð rétt á sér - en uppgræsla til þess eins að gera Ísland líkara einhverju skógi vöxnu miðevrópuríki er mér ekki að skapi.

En hvað er til ráða? Hvernig má stöðva þessa "trjáálfa" sem sífellt leggja undir sig meira af söndum og móum? Ég held að eina færa leiðin sé að auka réttindi sauðkindarinnar og fjölga henni til mikilla muna. Sauðkindin mun ráðast að rótum vandans í bókstaflegri merkingu og þannig koma Íslendingum til bjargar enn eina ferðina.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182