Lesbók30.03.07 — Enter

Nú ætlar blöðruhálsinn snoppufríði Josh Groban að heiðra okkur með komu sinni, en hann mun leika listir sínar á sviði Laugardalshallar 16. maí næstkomandi – og jafnvel oftar, því svo mjög þrá íslenskir listunnendur að berja goðið augum að annað eins hefur varla sést hérlendis og því fátt annað til ráða en að splæsa aukatónleikum á liðið, sem ef ég þekki mitt úthverfakítti rétt mun sitja um aðgang að, líkt og hýenuhjörð um dvalarheimili.

En ég þarf ekki að taka þátt í slagnum. Ég þarf nefnilega ekki miða á Groban. Hann hef ég séð. Með eigin augum.

Nánar tiltekið var það í Bandaríkjum Norður-Ameríku, fyrir nær þremur árum. Rétt fyrir utan Denverborg í Coloradofylki, á merkum tónleikastað sem kenndur er við rauða steina. Þar mun til glöggvunar hinn óstýriláti músíkant Ozzy Osbourne fyrst hafa gætt sér á leðurblökuhöfði, tónleikagestum til óblandinnar ánægju.

Nema hvað. Þarna var ég. Í faðmi fjalla rauðra. Að vonum spenntur að sjá söngfuglinn ljúfa og raddprúða, renna í sína fegurstu smelli – vopnaður vasaklút, sjónauka og bunka nærklæða til að varpa til stjörnunnar í hita leiksins.

Og sannarlega varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Josh leið um sviðið sem nýþveginn engill, söngurinn kristalstær og kröftugur. Hver perlan rak aðra á efnisskránni – og alltaf þegar maður hélt að túlkunin, einlægnin og viðkvæmnin hefði náð hápunkti náði þessi goðum líka vera, Josh, að koma manni í opna skjöldu – sumir myndu segja með ofkeyrðri og yfirgengilegri væmni – en ég kalla það varfærnislega snilligáfu.

Í lok tónleikanna stóð ég á fætur og hyllti Josh, ærður af hamslausum fögnuði. Nærklæðin sem ég hugðist kasta höfðu flest orðið til að þurrka kverkar og nasir, því vasaklúturinn varð þegar gegndrepa í fyrsta lagi. Bravóöskur mín voru þó yfirgnæfð af sturluðum kvenkyns aðdáendum á sextugsaldri, sem skríktu af kæti og frygð fyrir aftan mig.

Svo hvarf hann sjónum. Og tómleikinn yfirtók aftur líf okkar, þessara fáeinu þúsunda, sem þarna vorum samankomin – og höfðum náð snertingu við guðdóminn.

Já. Ég hef sumsé séð Josh. Hallelúja. Og ef satt skal segja þá treysti ég mér hreinlega ekki til að endurtaka leikinn, hvorki líkamlega né andlega.

En þið hin. Góða skemmtun. Ég bið að heilsa.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182