Lesbók31.07.01 — Kaktuz

Tólf vindstig !!! Tólf vindstig og haglél sagði veðurstofan og ég fastur uppá heiði á gamla International jeppanum hans Halla frænda. Ég hafði verið í sendiferð fyrir Halla vestur í Arnarfjörð og var nú á heimleið. Það var kominn nóvember og enginn annar á ferð. Reyndar hafði fólkið á Hrafnseyri sagt við mig að það væri ekki ráðlegt að leggja á heiðina svo seint um kvöld, en ég var búinn að fá pláss á rækjubát suður með sjó og hann átti að láta úr höfn morguninn eftir. Ferðin hafði gengið vel framan af en nú var bíllinn sem sagt fastur í einum af þessum frægu Vestfirsku drullupyttum og afturdrifið brotið. Þar sem framendinn á bílnum hafði stungist ofan í drulluna drapst fljótlega á vélinni og það kólnaði óðum í bílnum. Ég hafði að ungra manna sið, að sjálfsögðu ekki hirt um ráðleggingar heimamanna um hlý föt og annan búnað. Nú var sem sagt að dimma og bara um tvennt að ræða, að drífa sig út og leita skjóls í sæluhúsi eða leitarmannakofa ellegar eyða nóttinni í bílnum og eiga það á hættu að frjósa í hel. Ákvað ég því að taka af skarið því ég hafði heyrt af helli þarna í nágrenninu sem var oft nýttur til skjóls af mönnum í fjárleitum.Gekk ég nú áfram eftir veginum í þá átt er ég taldi hellinn vera. Ferðin var mun styttri en ég hafði búið mig undir því eftir aðeins um tuttugu mínútna gang sá ég glitta í hellismunnann gegnum haglið. Ég greikkaði sporið og var fljótlega kominn inn undir lítinn skúta. Hlaðið hafði verið steinhellum fyrir opið þannig að aðeins sneri þröngt op mót norðangaddinum. Ég hafði skriðið inn um opið og hengt úlpuna mína fyrir til að fá gott skjól. Hellirinn var þurr að innan og ég settist á gamlan bekk sem stóð þarna fyrir innan. Halli frændi hafði sem betur fer troðið einum eldspýtnastokki í úlpuvasann minn þegar ég sótti bíllinn til hans og varð það mér nú til happs. Ég fann nokkuð af þurru spreki og kveikti í. Nú hitnaði fljótlega og ég lagðist útaf og sofnaði. Ég svaf illa og dreymdi mikið. þegar komið var eftir miðnætti vaknaði ég við þrusk í úlpunni og þegar ég leit á hana skreið maður innum hellisopið. Hann var illa til reika og hneig þegar niður. Gekk ég þegar til hans og hjálpaði honum að leggjast á bekkinn. því næst bætti ég spreki á eldinn og blés á hann til að glæða logana.

Nú virtist maðurinn sofna og ég gat virt hann fyrir mér. Hann var grannur, meðalmaður á hæð með þykkt ógreitt grátt hár á höfði. Hann var klæddur skinnstakki og skinnbuxum. Það glitti í snjáða bómullarskyrtu uppúr hálsmálinu og hann var girtur að því er virtist prússnesku höggsverði. Sat ég nú yfir manninum fram undir morgun er hann tók að ókyrrast og loks vaknaði hann. Hann leit á mig stálgráum augum og sagði á bjagaðri íslenzku "Þakka þér vinur björgina." Ég sagði að það væri skylda hvers kristins manns að veita hjálp þeim sem í neyð eru staddir. Maðurinn glotti við og sagði að svo væri víst en spurði svo hvort ég ætti ekki tóbak handa sér. Ég dró fram Lökkystrækspakka og bauð honum. Hann kveikti sér í. Nokkrum sinnum saug hann djúpt að sér reykinn og sagði að lokum "Það sagði keisarinn alltaf að tóbakið væri gjöf guðs til breyskra manna. Ég get svosum verið sammála því enda hef ég aldrei hræðst neitt nema ef vera skyldi að deyja tóbakslaus." Reykti hann nú þögull um stund uns vindlingurinn var uppurinn. Drap hann þá í honum á bekknum og sagði "Þakka þér aftur vinur björgunina en einkum reykinn. Ég mun launa þér vel. En nú er minn tími liðinn, vertu sæll.....Gott segnen den Kaiser !!!" Því næst lagðist hann niður og dó. Breiddi ég yfir hann eftir að ég hafði gætt þess að hann væri örugglega látinn og beið því næst morguns.

Til að gera langa sögu stutta komst ég til byggða um miðjan næsta dag og fékk með mér menn úr næsta firði til að fylgja mér að bílnum og losa hann. Þegar við komum svo í hellinn voru engin merki um manninn nema stubburinn á bekknum. Hvernig sem leitað var fannst hvorki tangur né tetur af líkinu. Er ég sagði söguna samferðamönnum mínum var mér tjáð að margir hefðu hitt þennan mann áður á heiðinni en engin átt tóbak að gefa honum. Stuttu eftir fundinn við draugsa dundi mikil ógæfa yfir alla þá sem hann höfðu hitt og nokkrir jafnvel látist. Töldu þeir nú voðan vísan fyrir mig og ráðlögðu mér að fara varlega í öllu eftir þetta. Frétti ég síðar að menn í sveitinni teldu manninn hafa verið afturgöngu Prússnesks liðsforingja sem varð úti á heiðinni um hundrað árum fyrr.

Ekki rættist þó úr hrakspám þessara manna enda hef ég verið ævintýralega heppinn alla tíð. Hef ég eignast mína eigin heildsölu með umboð fyrir mörgum hinna mest seldu heimilssápa hér á landi. Ég á góða kona og þrjú börn. Ég á mitt eigið raðhús í Fossvoginum og svo mætti lengi telja. Þakka ég tóbaksgjöfinni þetta allt saman enda hefi ég árætt að ég skildi ekki deyja tóbakslaus og geng þess vegna alltaf með vindlingapakka í brjóstvasanum.

 
Enter — Saga
 
Enter — Saga
 
Myglar — Saga
 
Númi Fannsker — Saga
 
Myglar — Saga
 
Fannar Númason Fannsker — Saga
 
Myglar — Saga
 
Enter — Saga
 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Saga