Lesbók27.09.06 — Enter

Þá er komið að því.

Í fyrramálið, 28. september 2006, verður tappanum stungið í flennivaskinn fyrir austan. Samkvæmt áætlun.

Háttvirtur iðnaðarráðherra, nýskipaður, segir samúðarfullur að „engar nýjar upplýsingar“ hafi komið fram þegar þúsundir Íslendinga marseruðu angistarfylltir gegn yfirvofandi óhugnaðinum. Enda var alltaf gert ráð fyrir að þjóðin yrði hysterísk og gréti sig í svefn kvöldið fyrir uppvask aldarinnar. Ekkert nýtt þar. Og þeim, altsvo stjórnvöldum, er vitanlega nett sama.

Skítsama.

Skítdrullusama þó eitthvað trjáknúsandi hippalistapakk grenji úr sér augu og lungu á hálendaskýlum sínum yfir einhverri örfoka landspildu lengst uppi á heiði, sem engum er til gagns hvað þá gleði.

Flotskítdrullusama.

Þeim er sama þó Draumlendingurinn Andri taki allar þeirra röksemdir og fyrirætlanir, brjóti þær niður svo ekki stendur steinn yfir steini. Þeim er sama þó hann taki að svo mæltu hvern þann stein og moli mélinu smærra með orðkynngi og hugmyndaauðgi. Þeir þegja bara. Brosa og þegja. Vitandi sem er að Íslendingar hlusta ekki á skáld sín heldur lesa þau.

Og jafnvel þó sjálfastur Ómar Ragnarsson brjóti sinn eldfima huga til mergjar og varpi fram stórfenglegri hugmynd landi sínu til varnar - sinni bestu - þá er þeim sama.

Þeir hlusta ekki einu sinni á Vigdísi. Bölvaðir.

---

En af hverju hlusta þeir ekki? Af hverju umfaðma þeir ekki góðar hugmyndir og gera að sínum að hætti lýðskrumara erlendra?

Jú það er vegna þess að þessar landeyður morgundagsins eru hvergi nálægar.

Landdrekkirinn Valgerður var send úr landi - í hæfilega fjarlægð. Þar stendur hún í pontu og stautar sig á bjagaðri ensku fram úr hjákátlegum yfirlýsingum um að koma þróunarframlagi Íslands úr 'hlálega litlu' í 'skammarlega lítið'.

Mótmælasveltirinn Davíð hímir í svartholi sínu við Arnarhvál og reynir íterkað við innanhússmetið í verðbólguglímu. Á meðan hunsar hann sinn yfirþyrmandi Golíat, sem hann hefði svo auðveldlega getað fellt hvenær sem hann vildi. Nú eða aldrei alið.

Og hvar er þessi Halldór? Hetja Austurlands. Krossfarinn selskinnsklæddi. Ofan í hvaða frárennslirör skreið hann?

Er það virkilega svo að það sé ríkisstjórn landsins auðveldara að skipta um forsvarsmenn en skoðun?

Svei því.

Eftir sitjum við með þá Geir og Jón. Þeim þykir þetta vissulega ferlega leiðinlegt allt saman. Það sést. Enda er þetta ekki þeim að kenna. Auðvitað ekki. Þeir voru bara að setja sig inn í málið. Enda nýbyrjaðir.

---

Annað kvöld verður borgin myrkvuð. Spáin er afleit. Enda lítil von til að hinir uppstökku íslensku veðurguðir verði í sínu besta skapi eftir að systur þeirra, fjallkonunni, hefur verið drekkt. Á áætlun.

Sennilega er það þó fyrir bestu að ekki sjáist til himins þann 28. september 2006 - og eins að við slökkvum öll ljós.

Því um leið sér enginn til okkar.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182