Lesbók06.03.06 — Enter

Nú á að reisa verksmiðju á Húsavík. Álver.

Auðvitað í stíl við flunkunýja verksmiðju á Reyðarfirði, sem einmitt er líka álver. Rétt eins og báknið í Straumsvík, sem reyndar stendur til að stækka - altsvo álverið. Svo eru menn aðeins að gæla við að klastra upp eins og einni verksmiðju í Helguvíkinni - sennilegast verður það álver.

Hvaða spangólandi hugmyndaþurrð er þetta eiginlega? Er ekki hægt að láta sér detta neitt annað í hug en þessi drepleiðinlegu álver?

Ál er ömurlegt.

Eins og hressilegar flenniverksmiðjur geta nú verið skemmtilegar og spennandi - þá er nákvæmlega ekkert skemmtilegt og spennandi við ál. Ekki neitt.

Ál er Linda McCartney málmanna.

Af hverju er ekki hægt að nota allt þetta rafmagn úr öllum þessum fínu virkjunum í eitthvað skemmtilegt. Eitthvað svolítið krassandi. Eitthvað sem við getum montað okkur af. Státað.

Það sýgur djúpfrystan aligölt að sitja uppi með þessa grængolandi álömurð sem meginframleiðsluvöru þjóðarinnar. Ég meina. Finnar framleiða síma, Danir legókubba - og Svíar, þeir fá að framleiða vopn! Svíar!

Af hverju gerum við aldrei neitt svoleiðis skemmtilegt.

Og þá er ég ekki að tala um eitthvað „voða flippað og íslenskt“, eins og grænbaunaverksmiðju, selskinnssútun eða þorskhausaþurrkun. Það er alveg hægt að finna einhvern milliveg.

Persónulega teldi ég hinu íslenska kúli hollast að hefja hér framleiðslu mótorhjóla, vörubíla, rafmagnsbassa og/eða skriðdreka. Einhverju dálítið karlmannlegu. Maskúlín. Ekki einhverju kellingarlegu. Í guðs bænum. Það er ekkert vandræðalegra en kellingarlegar verksmiðjur.

Eins og til dæmis álver. Þau eru einmitt viðurstyggilega kellingarleg. Úrelt, úr sér gengin og gamaldags; gagnast engum og gleðja engan.

---

En ef endilega þarf að reisa öll þessi déskotans álver. Þá krefst ég þess að þau verði í það minnsta máluð í mismunandi litum, skærum.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182