Lesbók28.10.02 — Númi Fannsker

JPV-útgáfa hefur gefið út bókina Orðaheimur eftir Jón Hilmar Jónsson, málfræðing. Segja má að bókin sé sjálfstætt framhald bókarinnar Orðastaður, sem kom út á svipuðum tíma árið 1994.
Bókin er 936 blaðsíður, rituð á afar vandaðan pappír (sennilega unninn úr Kanadalerki) og vegur um 2,3 kg. Bókina skreyta engar ljósmyndir, nema hvað dulítil portrettmynd af höfundi prýðir kápuhlíf - ágætis mynd svosem af ágætum málfræðingi.

Mig skortir orð að lýsa hrifningu minni eftir lestur bókarinnar - svo mikil áhrif hafði hún á mig. Satt að segja er hér um einstakan viðburð að ræða í íslenskri menningar- og málsögu þar sem höfundur hefur flokkað 840 hugtakaheiti sem eru nánar skilgreind með um 33.000 orðasamböndum! Hvernig fær maður lýst þeim djúpu áhrifum sem slíkt þrekvirki hefur á auman gagnrýnanda? Jú, maður flettir upp í Orðaheimi.

Á blaðsíðum 154-155 er að finna hugtakið Hrifning/aðdáun. Við skulum sjá hvaða orðasambönd sem þar eru tíunduð eiga við upplifun mína við lestur bókarinnar:
1) Ég er hrifinn af bókinni, það er ljóst.
2) Ég dáist að höfundinum að nenna hreinlega að standa í því að skrifa slíkt verk.
3) Ég las bókina heillaður.
4) Mér fannst mikið um verkið við lestur þess.
5) Ég er bergnuminn.
6) Bókin er aðdáunarverð, stórkostleg, stórfengleg, dýrleg, mögnuð, æðisgengin, með ólíkindum, makalaus - að hugsa sér!

Bókin Orðaheimur er bráðnauðsynleg öllum sem vinna með texta: Hún er dýrmæt skáldinu sem sækir björg sína í heim orðanna, nemandanum sem fálmar eftir leið til að leysa lítið ritgerðarverkefni, kennaranum sem vill vera góð fyrirmynd nemenda sinna, stjórnmálamanninum sem reynir af alefli að heilla kjósendur með lipurri tungu sinni, forstjóranum sem heldur lítinn ræðustúf á starfsmannafundi, almúgamanninum sem langar til að skrifa eilítið öðruvísi jólakort...

Eins og Orðastaður árið 1994, markar Orðaheimur tímamót í útgáfu handbóka á Íslandi, höfundurinn hefur gefið okkur 936 blaðsíðna sýn yfir íslenska tungu - hann hefur opnað hliðin að heimi orðanna og boðið okkur inn fyrir, í stuðið!

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182