Lesbók06.02.06 — Enter

Einhver postulínsapinn úr menningarhirðinni missti það út úr sér um daginn að að öld liðinni yrði íslensk tunga vart töluð í þeirri mynd sem við þekkjum hana í dag.

Vitanlega urðu margir til að grípa þessi orð á lofti, enda drjúgt upp í sig tekið. Mætir menn lýstu áhyggjum sínum yfir yfirvofandi hruni beygingarkerfisins, aukinni og sífellt grófari misbeitingu sagna og stöðugt rýrari orðaforða - auk þess sem slettublandið og skammstöfunarskotið mál ungmenna og var að venju fordæmt. Skiljanlega.

En svo komu hinir. Máldólgarnir. Föðurlandssvikararnir.

Þeir blésu á þessar áhyggjur, töluðu um bölsýni og heimsendaspár. Þeir sem boðuðu sókn gegn málglöpum og orðníðslu voru kenndir við fasisma og þeir hæddir fyrir stöðnun og afturhaldssemi. Því haldið fram að íslenskan eigi einfaldlega að fagna breytingum, þróast eðlilega. Aðlagast breyttum tímum.

Með öðrum orðum: Útvötnun, úrkynjun, dauði. Það er dagsskipunin.

Það er nú barasta ekki í lagi með þetta heiladofna hyski allt. Á bara að leggja árar í bát? Berast með straumnum? Reka dúrandi á haf út?

Það er ekkert sem við eigum dýrmætara íslenskri tungu. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Og að henni ber að hlúa. Með kjafti og klóm. Hvað svo sem þessir klauftyngdu málvillingar segja.

Það er ekkert gamaldags né forneskjulegt við málvöndun. Hana ber að efla og styrkja - og hvergi slá af. Þágufallssýki á að berja niður af fullri hörku, flámælgi skal kæfð í fæðingu, sérnöfn skulu beygð, undantekningarlaust. Ný hugtök og heiti skulu þýdd hvað sem það kostar - og nýyrðasmiðum helst drekkt í gulli, grænum skógum og óspjölluðum meyjum.

Þeir sem svo sjá sig knúna til að misþyrma málinu með tökuyrðaklámi, óskýrmælgi og fallflótta geta bara skakklappast með skömm úr landi, með allt sitt hafurtask og aftyngt sig sem fjærst Íslands ströndum. Fari þeir og veri.

Við höfðum þetta góða tungumál með okkur hingað, hún er stolt okkar og yndi og tenging við allt það sem okkur er heilagast; sögu, hefð og menningu. Við höfum búið með henni gegnum súrt og sætt, þykkt og þunnt. Hún hefur verið vörn okkar, vin og huggun - og hana ber að virða, skilyrðislaust.

Gætum að, því meðan tungan lifir, dafnar og vex mun síðasti Íslendingurinn aldeilis ekki þurfa að skammast sín á hinsta degi. Ella verða lokaorð hans efalítið OMG - eða fokk.

 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... , 180, 181, 182