Lesbók18.10.02 — Myglar

Í gærkvöld brá ég mér ásamt þeim Spesa, Enter og frænku Enters á öldurhús hér í bæ til að fylgjast með áhugaverðri keppni. Þar var á ferðinni keppnin "Fróðasti maður Íslands" (eða eitthvað í þeim dúr) og var einn af spilafélögum okkar úr briddsklúbbnum meðal keppenda.

Það er ekki laust við að keppnin hafi verið á áhugaverðu formi. Keppendur virtust eiga að stíga á svið og þylja yfir salinn upplýsingar úr hinum ýmsu fræðum. Sér til halds og traust máttu þeir einungis hafa einn míkrófón, en öll notkun uppfletti- og fræðirita virtist vera bönnuð. Í þokkabót var svo ekki einu sinni krítartöflu fyrir að fara á sviðinu, svo ljóst var að keppendum var ætlað erfitt verk.

Þegar við mættum á svæðið var næst síðasti keppandinn í þann mund að ljúka atriði sínu og virtist honum hafa gengið vel. Áhorfendur sátu meira eða minna hljóðir og hlýddu á tölu hans, þó bjórdrykkja væri greinilega farin að slæva huga þeirra dulítið. Hann hlaut svo kurteislegt klapp að launum og virtist þar vera nokkuð fróður maður á ferð.

Næstur og síðastur á svið var svo félagi okkar úr briddsklúbbnum. Ég átti von á að hann myndi láta til sín taka í keppninni - enda fróður maður þar á ferð - en það fór öðruvísi en ég ætlaði. Hann náði vart að koma upp orði hvað þá kasta fram fróðleiksmola áður en gestir byrjuðu að hlæja að honum. Og ekki batnaði það eftir því sem á leið. Þegar hann reyndi að ræða um samskipti kynjanna og fleiri samfélagsleg málefni var hlegið að hverju orði og þegar hann svo ætlaði að fjalla um mismunandi aðstæður til sauðfjárræktar eftir landshlutum (sem mér finnst einmitt afar áhugavert rannsóknarefni) var varla lengur hægt að heyra hvað vesalings maðurinn sagði fyrir hlátrasköllum, flissi og pískri frá áhorfendaskrílnum. Svo loks þegar vesalings maðurinn steig af sviðinu eftir u.þ.b. 20 mínútna afar fróðlegan (að mínu viti) fyrirlestur, brutust út gríðarleg fagnaðarlæti í salnum, eins og gestir vildu nudda salti í sár hins niðurlægða manns.

Ég var kominn á fremsta hlunn með að rjúka sjálfur upp á svið, hrifsa hljóðnemann og kenna bölvuðum ruslaralýðnum mannasiði ellegar hringja á yfirvöld og láta stöðva þessa skammarlegu samkomu, þegar fulltrúi dómnefndar steig á svið og stillti til friðar. Hann tilkynnti þau úrslit að félagi okkar hefði sigrað í keppninni og því ljóst að dómarar hafa verið fróðir menn, sem ekki hafa látið ólæti drukkins áhorfendaskarans brengla dómgreind sína.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182