Lesbók16.08.05 — Enter

Þegar ég var ungur varð ég eitt sinn fyrir þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að sjá hinn mæta gítarista Jimmy Page leika listir sínar á sviði. Ég ákvað þá að ég myndi aldrei eyða tíma mínum í að læra á slíkt hljóðfæri. Hann var svo skrambi góður.

Um síðustu helgi fór ég á tónleika Bobby McFerrin í Háskólabíói. Ég ætla aldrei að tala framar.

Tónleikarnir hófust, ýmsum að óvörum, á söng Kammerkórs Langholtskrikju. Þau sungu alveg prýðilega, en lögin, sem voru eftir einhvern náunga sem líklega er best gleymdur, voru öll í einhverjum viðurstyggilegum amerískum swing-kór útsetningum (sem er fyrir þá sem ekki vita eitt alleiðininlegasta tónlistarform veraldar, notað við pyntingar í ýmsum löndum) — og mér lítt að skapi.

Hvað um það. Eftir nokkra bið lallaði McFerrin inn á sviðið, klappaði kórnum lof í lófa og tyllti sér á stólgarm á miðju sviðinu. Hann var ósköp lítið fyrir augað. Grannvaxinn, bolklæddur og hálf syfjulegur eitthvað þar sem hann gjóaði augum á áhorfendur gegnum torkennilega hárflækjuna.

En svo byrjaði hann — hvað skal segja — að syngja. Þvílíkt og annað eins. Þarna gusaðist skyndilega upp úr honum lag. Ósköp dægilegt sönglag svosum, nema að viðbættum undirleik; Trumbuslætti, bassagangi trompetstrófum og öllu tilheyrandi. Og svo hélt hann áfram, gaf áhorfendum varla færi á að tryllast af fögnuði milli laga. Óð í hvert atriðið á fætur öðru, hvert öðru lygilegra. Það er engin tilviljun að þessi maður er kallaður Röddin. Hljóðin sem hann framkallar, hvort sem þau eru uppi í rassgati, eða niðri í því eru hreinlega ótrúleg. Svo ekki sé talað um fínstillingu, raddbeitingu, styrkleika, takt — allt nálgaðist þetta fullkomnun. Svei mér þá.

Smám saman varð kappinn fjörugri og skyndilega, án þess að nokkur tæki sérstaklega eftir því, var hann farinn að benda salnum að taka þátt. Án þess að segja orð stýrði hann salnum með fáeinum handahreyfingum og fékk hverja einustu hræðu til að bresta í söng, meðan hann lék undir á — tjah — sig. Svo þaggaði hann niður í mannskapnum með einni handarhreyfingu. Hafði fullkomna stjórn á salnum.

Fleira gerði hann, jú mikil ósköp. Kammerkórinn átti stórleik undir hans stjórn. Hann fékk einnig áhorfendur í sal til að standa upp og syngja eina síns liðs, meðan hann raddaði og trallaði með. Reyndar þurfti hann dálítið að hafa fyrir því að toga sönginn upp úr harðlokuðum landanum, en hafði sitt fram, jafnvel þó hann þyrfti bókstaflega að skríða eftir bekkjunum og fram í salinn. Hann fékk meir að segja nokkra sjálfboðaliða upp á svið til að dansa. Einn af öðrum. Einn í einu. Meðan hann framdi raddkúnstir sínar og skemmti sér bersýnilega konunglega.

Að lokum var drifinn upp á svið stráklingsgrey, sem hafði sigrað einhvurja hæfileikakeppni með því að syngja Don't worry - be happy. Sá var að vonum ein taugahrúga þegar McFerrin byrjaði á undirleiknum, en komst þó gegnum lagið með nokkrum krókaleiðum — nokkuð skammlaust. Þetta þótti McFerrin allt saman einkar gleðilegt, enda slapp hann sjálfur við að syngja lagið óumflýjanlega.

Þegar dagskrá var lokið var að vonum klappað og stappað og emjað og æmt í salnum. Eftir langa og stranga mæðu kom McFerrin aftur og tók eitt, stutt aukalag. Þrátt fyrir að það gerði lítið annað en að æsa upp þorsta tónleikagesta í meira þá vissum við sem þarna stóðum, sturluð af gleði, að þessum mögnuðu tónleikum var lokið.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182