Lesbók14.08.05 — Enter

Það getur vafist fyrir mönnum að leggja rétt á borð. Sumir kunna það einfaldlega ekki, aðrir gera það af hirðuleysi eða vankunnáttu og enn aðrir nenna hreinlega ekki að vanda sig við þessa einföldu athöfn, sér í lagi ef þeir snæða einir.

Einveran er þó engin ástæða til að leggjast í barbarisma og siðleysu og því eru hér einfaldar reglur sem allir ættu að geta tileinkað sér. Athugið að hér er einungis um einrétta máltíð að ræða. Leiðbeiningar um fjölrétta máltíðir bíða betri tíma.

  1. Munnþurrka (pentudúkur), hvít eða ljósleit, brotin saman í miðju og lögð langsum yfir matardiskinn.
  2. Matardiskur (10''-12'', alls ekki minni).
  3. Salatdiskur (7''-8'') .
  4. Diskur fyrir brauðmeti (5''-6'') og smjörklípu ásamt litlum smjörhníf sem lagður er þversum efst á diskbrúnina.
  5. Vínglas, á fæti. Skal nema við hnífsodd. Ef einnig er drukkið vatn með máltíðinni skal vatnsglasið haft til hægri hliðar við vínglasið og 1cm niður á ská.
  6. Gaffall, til vinstri við matardisk. Skaft skal nema við skaft hnífs.
  7. Borðhnífur, til hægri við matardisk, egg skal snúa að diski.
  8. Salatskeið, ellegar gaffall. Skaft skal nema við skaft hnífs.

Varla þarf að taka fram að borðbúnaður skal vera tandurhreinn, af sömu tegund — og borðið sjálft skal vera dúkað hvítu líni.