Lesbók22.08.02 — Fannar Númason Fannsker

Ásatrú er merkilegur siður og Ásatrúarfélagið er merkilegur félagsskapur, þar sem félagar þess hafa það að markmiði að sitja við drykkju í Valhöll og taka þátt í hressandi blóðugum bardögum að lokinni vist sinni á jörðinni. Njóta þess að slaka á í leðursófasetti í borðstofu Óðins með mjöð í krús - hrópa: "SKÁL!" og reka svo rýting í bakið á sessunaut sínum. Éta flesk, skála svolítið meira, glíma, berjast dulítið, kljúfa nágranna sína í herðar niður. Flissa.

En hvernig er hinu æðsta takmarki náð? Með hvaða móti fær maður sæti í hinu heiðna sófasetti? Hver er gjaldgengur í ríki hinna mjaðardrekkandi og rýtingsstingandi? Jú, það eru vopndauðir karlmenn og þær fáu konur sem brúklegar þykja til þjónustustarfa. Hinir fara í ískalt víti. Þar ræður ríkjum hin hálfbláa Hel, sem gefur kollega sínum Lúsíferi fátt eftir, ef nokkuð.

Miklar deilur hafa nú blossað upp innan safnaðar ásatrúarmanna. Þeir hafa vikið sínum fróma alsherjargoða, Jørgen Hansen, og sett Vesturlandsgoða, afar geðþekka manneskju, í sæti hans. Af þessum sökum krauma nú illindi, rígur og blóðþorsti innan safnaðarins - hverju sætir þetta?

Sjáið til: takmark langflestra trúarbragða, þ.m.t. Ásatrúar, er að eyða eilífðinni í faðmi guðs síns - Óðins í þessu tilfelli. Það verður aðeins gert með innbyrðis stríði Ásatrúarmanna þar sem hver fellir annan í blóðugum bardögum, hrossaketsáti, fórnum og goðblótum. Hrossaketið hafa þeir Ásatrúarmenn étið öldum saman, fórnir hafa þeir fært margar og blótað viðstöðulaust. Minna hefur farið fyrir mannvígum, að því er virðist. Nú er hinsvegar efsti dagur félaga í Ásatrúarsöfnuðinum að renna upp. Dulítil Ragnarök eru í uppsiglingu þar sem andstæðar fylkingar murka lífið hvor úr annarri og hittast svo í góðu stuði í Valhöll.

Nú safnast valkyrjur saman, tilbúnar að sækja hinar föllnu hetjur. Þeir gala í kór: Fjalar, Gullinkambi og sá sótrauði.

Geyr garmur mjög
fyr Gnipahelli.
Festur mun slitna
en freki renna.

Góðar stundir.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182