Lesbók08.06.05 — Enter

Í gær fór ég upp í sveit til að hlýða á bresku rokksveitina Iron Maiden, nánar til tekið í Egilshöll.

Ég stillti mér upp miðsvæðis, innan um sjaldþvegna, svartbolaða listunnendur, í hæfilegri fjarlægð frá sviði - og beið í ofvæni.

Til að reyna á þolrif og hlustir gesta hóf eitthvurt kafloðið ungmennafélag frá Akureyri, sem kallar sig Nevolution, upp rop og gítarmeiðingar sem stóðu yfir í rúman hálftíma. Ekki mín sultukrukka, eins og kerlingin sagði - og gerði fátt annað en að æsa upp í manni menningarhungrið.

Á settum tíma birtust svo kempurnar knáu, loðnar um upphandleggi og lófa - og þrönggirtar sem aldrei sem aldrei fyrr. Á matseðli sveitunga var aðeins að finna lög af fyrstu fjórum skífum sveitarinnar, Járnmey, Morðingjum, Tölunni dýrsins og Heilabroti - og var það vel til fundið. Hver perlan rak aðra, allt frá ellihrumu upphafslaginu, Morðvörgum í Líkhússtræti, fram að þriðja uppklappslagi, Griðastað.

Bruce Dickinson, söngvari og hlaupagikkur var í banastuði, vægast sagt. Röddin var í toppstandi, sem og mjaðmir. Vandséð að hann hafi verið betri. Hrein unun var að hlýða á söng hans í Gleymdu ekki morgundeginum, lagi sem sjaldan fær inni á tónleikum. Leikstjórnandinn Harris var og í góðum gír, þó nokkuð hafi dregið af honum síðasta áratuginn eða svo. Kitlaði bassann af listfengi og trallaði með öllum lögum - enda úr hans smiðju allflest.

Gítartríóið skemmti sér auðsjáanlega stórkostlega, Murray ljómaði að venju eins og nýbónaður tómatur, Smith geiflaði sig eins og þaulreynt sýningarnaut og hinn illi tvíburabróðir Kim Larsen, Janick Gers tók balletteygjur sem aldrei fyrr. Allir stóðu þeir sig með mikilli prýði þó þeir tveir fyrrnefndu hefðu að ósekju mátt láta þeim síðastnefnda eftir svo sem eins og eitt sóló.

Trymbillinn ómetanlegi, Nicko, sást lítið enda grafinn undir málmgjöllum, klukkukólfum og bumbum. Hann skilaði þó sínu af fádæma þrótti og alúð, að venju. Gaman var að sjá, þegar hann birtist á sviðinu undir lokin, að hann hefur ekki sagt skilið við hjólabuxurnar þrátt fyrir háa elli og aðdáunarverða bjórvömb.

Lagavalið var sérlega skemmtilegt, en það var sem áður segir einskorðað við fyrstu plöturnar. Innan um smelli á borð við Jólalag Baggalúts 2003, Töluna dýrsins og Helgist þitt nafn var rennt í fáheyrð og forn lög af fyrstu tveimur skífunum. Var auðsjáanlegt að gömlu mönunum var ljúft og skylt að endurnýja kynnin af þeim og má í raun segja að þar hafi sveitin leikið hvað best og af sem mestum móð og gleði.

Af þessu má ráða að mér þóttu tónleikarnir til mikillar fyrirmyndar. Hljóð hefði mátt vera betra, hverju sem það var að kenna, bassi og trommur runnu á tíðum í full mikinn graut og yfirgnæfðu óp og skræki Bruce. Eins hefði það verið til bóta að bregða upp risaskjám upp í rjáfri því þótt stæðilegir menn á borð við mig hafi séð prýðilega þá leyndust í þvögunni konur, börn og dvergar sem lítið sáu annað en langsveittar bakraufar og daunilla handakrika.

Ég bíð spenntur eftir næsta skammti af upprifjun Iron Maiden á æviverkinu og vona svo sannarlega að kapparnir snúi þá aftur hingað - en um leið að ég þurfi ekki að ferðast út á land til að sjá þá.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182