Lesbók07.04.05 — Númi Fannsker

Það er ekkert grín að vera iðnaðarráðherra. Hvað þá þegar maður þarf líka að vera viðskiptaráðherra! Þetta er stórmál. Maður þarf að reikna allan fjandann út, spekúlera í þessu, spá í hinu - meta þetta og vega hitt. Svo þarf svona ráðherra að taka ansi umdeildar ákvarðanir - sem þurfa eðli málsins samkvæmt að vera býsna vel ígrundaðar. Úff ekki gæti ég verið svona iðnaðarráðherra - og alls ekki ef ég þyrfti líka að vera viðskiptaráðherra. Eins gott að við eigum vel menntað, reynslumikið fólk til að sinna þessum störfum.

Hvað ætli maður þurfi nú að hafa til að bera til að vinna starf eins og þetta? Látum okkur nú sjá - kíkjum á www.althingi.is og skoðum aðeins menntun og reynslu núverandi iðnaðarráðherra, sem í ofanálag er viðskiptaráðherra:

Hún er með próf úr Kvennó - það er nú gott ef maður ætlar að vera kvenráðherra. Svo lærði hún þýsku í eitt ár og ensku í eitt ár - það er gott þegar maður þarf að semja við pólska iðnaðarmenn og ameríska álframleiðendur.
Nú - svo vann hún ýmis ritarastörf, m.a. fyrir kaupfélagsstjóra KEA og einhvern lækni. Það nýtist örugglega í starfi iðnaðarráherra, sem einnig er viðskiptaráðherra - t.d. er gott að geta vélritað bréfin sín sjálfur.
„Kennari við Grenivíkurskóla “- er það nú alveg satt? Hún er náttúrulega ekki kennaramenntuð. Þetta heitir vitaskuld að vera leiðbeinandi. Nú og svo var hún húsmóðir og bóndi í nokkur ár - eða þar til hún var skipuð iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Er þetta bara allt í lagi? Að ráðherra iðnaðar og viðskipta sé með próf úr Kvennó (sem vissulega er góður menntaskóli) og að hún hafi lokið námskeiði í þýsku og ensku. Starfsreynslan felst í símsvörun og ritvinnslu - auk þess að segja til grunnskólabörnum og hugsa um heimilið (sem er vissulega góðra gjalda vert). Þessi kona er ráðherra iðnaðar og viðskipta. Ég sé það núna að ég hefði átt að hvetja mömmu til að sækjast eftir þessu starfi. Hún hefur gert allt þetta - og meira til, hún fór nefnilega á keramiknámskeið 1987. Hún hefði sjálfsagt fengið starfið.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182