Lesbók18.03.05 — Enter

Hvar er þessi bévítans Auðun, með einu enni?

Þið vitið. Þessi sem á að ráða sem fréttastjóra á RÚV. Þessi sem allt fjaðrafokið er útaf. Þessi sem á að stýra rótgrónustu fréttastofu landsins og bera landsmönnum trúverðugar, hlutlausar fréttir af staðfestu og ósérhlífni. Þessi sem á að leiða einn reyndasta fréttamannahóp landsins. Þessi sem útvarpsstjóri benti á að sér þætti bestur. Hvar í djúpsteiktum dauðanum er hann eiginlega?

Á maður ekkert að fá að sjá hann - þennan Auðun með einu enni? Er hann til í alvörunni? Er hann enn í heilaþvotti? Er hann ennþá á fram­leiðslu­stigi? Er hann enn að markaðssetja fiskvogir í Tíbet?

Hvar er hann - þessi dularfyllti Auðun með einu enni?

Ég vil fá að sjá hann. Ég vil fá að heyra í honum. Nei. Ég krefst þess að fá að heyra í þessum meinta ljósbera nýrra tíma. Ég heimta að fá að grandskoða þennan frelsandi engil sem öllum er sagður hæfari til að flytja fréttir.

Hví? Jú, ég vil bara ekki hafa það að einhverri hjárænulegri puntudúkku sem ég kann engin deili á sé potað þarna upp í Efstaleitið til að elda heimsfréttirnar ofan í mig og mína. Ég vil bara ekki hafa það.

Mér er, minn kæri Auðun með einu enni, rennislétt sama hvað þú krossar við á kjördegi og hverjir vinir þínir eru. Í sjálfu sér er það grund­vallar­mannúðar­stefna að verðlauna þá sem umgangast framsóknarmenn þó ekki sé nema að litlu leyti. En skítt með það. Ég vil bara vita að þú sért starfinu vaxinn. Og ég vil heyra þig sannfæra mig. Ekki þá sem fóru yfir prófið þitt - eða þá sem finnst þú æði. Þig - bara þig.

Því skalt þú bara gjöra svo vel, Auðun með einu enni, að skakklappast fram úr þínu fylgsni - og standa fyrir þínu máli. Ég bið ekki um mikið. Aðeins að þú gerir það sem þú ert sagður gera flestum betur - flytjir okkur frétt.

 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Myglar — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Gagnrýni
 
        1, 2, 3, 4, 5, 6 ... 180, 181, 182