Lesbók31.07.02 — Númi Fannsker

Af öllum heimsins íþróttum - sem munu vera fjölmargar - er kappakstur sú fáránlegasta. Og af öllum heimsins kappakstri er Formúla 1 sá alheimskulegasti. Leðurklæddir karlar plástraðir sígarettu- og brennivínsauglýsingum eru í þessari íþróttagrein upphafnir sem guðir. Þeir eru teknir í tölu heilagra manna vegna þess að þeir keyra bílum sem komast hratt! Heimskir sjónvarpsáhorfendur gleypa svo í sig beinar útsendingar af hringsóli þessarra herramanna um miðjar nætur. Spyrji maður áhorfanda hvað heilli hann við slíkan barnaskap segir hann gjarnan: 'það er svo spennandi að sjá hvaða "strategíu" þeir nota á þessari braut'. Herkænska er sumsé það sem er spennandi við kappaksturinn. Nota þeir ef til vill regnhjólbarða í dag? Eða er nýi bíllinn svo frábær að ekki þarf að gera við hann fyrstu 50 hringina af milljón? Það er auðvitað ekkert spennandi að sjá hver vinnur, það vita allir mörgum dögum áður en keppnin hefst og undanfarið reyndar strax í byrjun keppnistímabilsins. Sami maðurinn vinnur nefnilega allar keppnir í Formúlu 1 kappakstrinum - ALLAR! Svo skellir hann sínum nikótínplástraða rassi upp á bíllinn og þambar kampavín úr heimilis- og sparnaðarumbúðum. Dýrðina sýnir svo Ríkissjónvarpið í landi þar sem áfengis- og tóbaksauglýsingar eru með öllu bannaðar. Og ekki nóg með það, heldur er öll opinber umfjöllun um tóbak harðbönnuð. En það má sýna Marlboromanninn sigra Smirnoffmanninn trekk í trekk og fagna svo þeim sigri með því að þamba af stút Dom Perignon. Svo til að enginn missi nú af boðskapnum eru auglýsingar þessar endursýndar - strax á eftir barnaefninu um helgar!

Má ég þá heldur biðja um krassandi skákskýringar eða beinar útsendingar frá landskeppni kvenna í bridds.

Góðar stundir.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182