Lesbók09.01.05 — Enter

Alveg á það aðdáun okkar dauðlegra skilda, fólkið sem vaknar til að rífast.

Fólkið sem situr í sjónvörpunum okkar á sunnudagsmorgnum; úfhært, floteygt og skjálffætt eftir veiðar og vínheimtu næturinnar. Alltaf skal það mæta til leiks, viku eftir viku. Raðar sér umhverfis geispandi og stíruhlaðna þáttaherra. Lagar til herklæði næturinnar; reykmetta jakkaboðanga, bleikbitna flibba og íklipnar dragtir. Penslar yfir glærustu líkamsleifarnar - og byrjar.

Að rífast.

Svo er rifist fram eftir degi - um heima og geima. Hægri og vinstri. Út og suður. Norður og niður. Hvað hverjum finnst um hvað, hversvegna - og hvort réttlætanlegt sé að einhverjum finnist eitthvað um það.

Sumir mæta alltaf, jafnvel á margar stöðvar á dag til þess eins að rífast dálítið og fá frítt kaffi. Það virðist skipta þá litlu hvað verið er að ræða, þeir segja jú ávallt það sama og gaman er að sjá hvernig vélræn, allt að því prestleg, endurtekningin rennur upp úr þeim leiknustu líkt og þeir séu að segja sum orð, jafnvel heilu setningarnar, í fyrsta skipti.

Að fólk skuli nenna þessu. Það þykir mér lofsvert. Næstum merkilegt.

Og stundum, meðan ég smjörset ristaða brauðið, dreypi á nýmöluðu kaffinu og horfi á fólkið æpa hvert á annað - þá ímynda ég mér hvernig það er að sitja úti í bæ á sunnudagsmorgni, glernæpu­hvínandi þunnur í flóðlýstum sjónvarpssal ásamt nokkrum koffínkeyrðum andremmusjúklingum og rífast um ríkisstjórnina. Eða Evrópusambandið. Eða list.

Ég vorkenni þeim meðan ég klára kaffið. Svo slekk ég.

 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Saga
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Kaktuz — Saga
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 178, 179, 180, 181, 182