Lesbók10.06.02 — Fannar Númason Fannsker

Nú er mér öllum lokið! Eru Íslendingar virkilega þeir apakettir að láta Kínverja stjórna því hvaða túristar mega heimsækja landið yfir hásumartímann? Ég hefi staðið í þeirri meiningu að hérlend stjórnvöld vilji stuðla að fjölgun erlendra ferðamanna. Sú er þó ekki raunin. Ekki ef ferðamennirnir eru meðlimir í alþjóðlegri leikfimis- og friðarhreyfingu. Hinir tignu gestir frá Kína eru nefnilega yfir það hafnir að þurfa að berja augum fólk sem er ekki sama sinnis og þeir. Fólk sem vill benda á þau voðaverk sem gestir okkar úr austri hafa unnið gegn friðelskandi heilsuræktendum eins og meðlimum í Falun Gong.
En gott og vel, forseti Kína telur að ef engin mótmæli eru sýnileg, sé engu að mótmæla. Og dómsmálaráðherra og hennar kónar virðast á sama máli, enda gera þau allt til að styggja ekki erlenda gesti, eins og sást best á NATO-fundinum, þar sem stórhættulegir starfsmenn hótels Sögu voru sendir heim og í heimsókn Li Pengs á dögunum, þegar blaðamenn voru lamdir og þeim meinað að taka myndir af höfðingjanum. Einnig hafa þjónar lýðræðisins í dómsmálaráðuneyti og hjá Ríkislögreglustjóra gert grein fyrir ákvörðun sinni með því að þungvopnaðir lífverðir forsetans séu líklegir til að hefja skothríð, sé stunduð hugleiðsla of nálægt hinum viðkvæma forseta. Afhverju í ósköpunum er verið að hleypa þvílíkum villimönnum inn í landið á sama tíma og friðsælum félögum í Falun Gong-íþróttafélaginu er meinuð landganga á Íslandi? Ég krefst þess að þvílíkir brjálæðingar séu afvopnaðir við komuna til landsins, ella mun ég halda mig innandyra meðan á heimsókninni stendur til að verða ekki á vegi slíkra vitfirringa. En það er auðvitað það sem Kínverjar og laganna verðir vilja; að íbúar og gestir þessa lands haldi sig fjarri slíkum höfðingjum, svo þeir geti sannfært sig um að á Íslandi sé fólki sama um mannréttindabrot og yfirgang þeirra. Og hvað er svosem í húfi fyrir Íslendinga neiti þeir að lúta kröfum Kínverja? Hætta þeir við að koma? Og hvað með það? Geti þeir ekki sætt sig við lýðræðislegar og samfélagsvænar aðstæður á Íslandi, eiga þeir að halda sig heima hjá sér. Ef manni er boðið í náttfatapartí, mætir maður í náttfötum! Maður telur ekki alla í partíinu á að klæðast engu, af því að maður sefur sjálfur nakinn.
Hvað ætla íslensk stjórnvöld að ganga langt í sleikjuskap sínum við erlendar þjóðir? Hversu djúpt geta þeir hneigt sig fyrir yfirgangi Kínverja? Hve gleitt ætlar lýðveldið Ísland að beygja sig þegar Kína, í sturtuklefa heimsins, kastar sápunni fyrir fætur þess?

Góðar stundir.

 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... , 180, 181, 182