Lesbók14.10.04 — Enter

Það hefur ekki verið venja að hygla menningarviðburðum hér á síðum Baggalúts - síst íslenskum. Ég má þó til með að fara örfáum orðum um þau undur og stórmerki sem eiga sér stað í Iðnó annað kvöld - föstudagskvöldið 15. október. Nefnilega nýbylgjuna ísfirsku. Þar mun tæp tylft sveita og einyrkja frá Stór-Hnífsdalssvæðinu troða upp og freista þess að skemmta tóngeldum og listmötuðum borgarbörnum ókeypis.

Fyrir þá sem alla tíð hafa alið manninn hér á jarðhituðu flatlendinu fyrir sunnan er erfitt að gera sér í hugarlund þá þrotlausu hetjulund sem einkennir vestfirskt tónlistarlíf. Það er ekkert grín get ég sagt ykkur að leika á rafmagnsgítar í brunagaddi í óupphituðum, snjófylltum bílskúrum. Það er ekki auðvelt að syngja rokk og ról með efri vörina frosna við míkrófóninn. Hvað þá að taka trommusóló með grýlukertum, plokka bassa með steinbítstönn eða smíða sér sæmilegt píanó úr hvalbeini, sjóreknum hjólbarða og selsgörnum.

Þetta hugprúða fólk sem nú stígur á stokk hefur mátt böðlast blóðrisa og örmagna yfir ótal ófærar heiðar með allt sitt hafurtask á bakinu. Með trommusett og hljóðkerfi bundið á vannærða múlasna hefur það náð á áfangastað til þess eins að leika listir sínar fyrir okkur, vanþakklátar og hitakærar þéttbýlis­rotturnar. Gerum okkur sjálfum ekki þá skömm að hundsa þennan viðburð. Mætum!

Það eina sem skyggir á gleðina er að það skuli vera frístundaleikarinn Helgi Björnsson sem er verndari hátíðarinnar, en ekki hárskerinn lagvissi, Villi-Valli.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182