Lesbók12.10.04 — Enter

Þessa dagana stendur yfir val á þjóðarblómi okkar Íslendinga. Því ber að fagna, þó ekki sé nema fyrir það traust sem íslenskum almenningi er loks sýnt með jafn vandasamri og þýðingarmikilli þjóðar­atkvæðagreiðslu.

Ég hlýt þó að furða mig á þeim kandítötum sem í boði eru. Sæt blóm - jájá, en heldur rislítil.

Þarna höfum við fjóra framjóðendur í kynvilltum fjólubláma. Þar af tvær tegundir, blóðberg og lambagras, sem ekki nokkur kjaftur þekkir sundur. Einnig Blágresi, sem gæti í sjálfu sér verið ágætis brandari - því nær ómögulegt er að mynda það svo vel sé vegna útfjólubláma þess. Loks Geldinga­hnapp, sem er vissulega dónalegasta nafnið sem í boði er, en er að öðru leyti óttalega óspennandi eitthvað. Minnir helst á misheppnað ástarbréf, ellegar salernispappír - samankuðlað og bleikt.

Gleym-mér-ei-in er ægifögur og kæmi vel til greina. - Í SVÍÞJÓÐ! Það er ég viss um að markaðs­fræðingar Ikea sitji núna sveittir á kosningavef mbl.is með kennitölur fráfallinna Íslendinga og kjósi kjötbollu­salatið grimmt.

Fífan er alltaf voða sæt. Loðin og blaut. En andskotinn hafi það - er hún blóm „sem gæti haft táknrænt gildi og sem þjónaði hlutverki sem sameiningartákn; blóm sem nýta mætti í kynningar- og fræðslustarfi bæði hér á landi og á erlendum vettvangi“?.
Ég meina - fyrir utan að minna á fátt annað en þrælahald og kvef; segir túberaður albínóadvergur ykkur eitthvað?

Þá er það bara blessuð holtasóleyin. Tvímælalaust fýsilegasti kosturinn. Kuldalegt illgresi sem alls­staðar nær að skjóta rótum. Hún hefur það fram yfir aðra keppendur að hafa verið valin þjóðarblóm Íslands á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins, 1994. Á þessum eina áratug hefur það þó bersýnilega gleymst og er því æði hæpið að veita þessu litlausa spæleggi brautargengi á ný.

Þar með er það upptalið. Var ekki hægt að finna eitthvað eilítið meira krassandi. Hvar er túnfífillinn? Hvar er þarinn?! Hvar er alltumlykjandi og græðandi mosinn?! Hundasúran og arfinn?

Ég skilaði auðu.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182