Lesbók11.10.04 — Enter

Ein er sú tegund samferðarmanna minna sem ég þoli hvað minnst. Fólkið sem ýtir á takkann.

Hvað gengur fullorðnu, fullfrísku fólki með starfhæfa meðvitund eiginlega til, þegar það kemur að gangbrautarljósum og án þess að líta til hægri né vinstri - teygir sig í takkann? Gagngert til að stöðva umferðina svo það sjálft megi í makindum líða á sínu bleikmettaða skýi yfir þjakaðar og hnýttar umferðaræðar borgarinnar.

Gott og vel. Ég líð fólki þennan munað (því auðvitað er þetta ekkert annað en síðkommúnískur sýndarmunaður) ef umferð er þung og sýnilega er borin von að komast á leiðarenda án þess að ýta. Án þess að svindla.

Það er bara svo örsjaldan sem þörfin fyrir ýtinginn er fyrir hendi. Þetta veit ég því ég er oftar gangandi en akandi þegar ósköpin dynja yfir. Ýmist er ég rétt á undan spellvirkjanum, vanalegast eftir að hafa beðið færis andartak, litið til beggja hliða og komist yfir á heiðvirðan máta. Eða, það sem mér þykir öllu verra - á eftir helvítinu. Blóðrjóður af skömm frammi fyrir hatursfullum bílluktum og grátandi ökumönnum.

Svei mér þá. Hvað munar þessa ýtóðu óværu um að hinkra eftir tveimur til þremur bifreiðum sem annars þurfa að húka bölvandi og fúlþenkjandi á rauðu ljósi - löngu eftir að spellvirkinn er á bak og burt. Þó þær væru tíu!

Mér hreinlega verður flökurt þegar ég sé viðlíka misnotkun á frelsinu. Er virkilega ekki hægt að treysta þessari þjóð til að fara af skynsemi með jafn lítilvægt vald og yfir nokkrum skitnum gangbrautarljósatökkum?

Sennilega ekki.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182