Lesbók10.06.04 — Spesi

Undir lok síðasta mánaðar hélt ég í fyrirlestraferð um England, þar sem ég flutti erindi mitt "The ape and it's quite spectacular ways of manipulating the human mind through the use of cobalt and other extra-terrestrial substances easily found in the Icelandic cat." Ferðaðist ég víða og kom við í ekki ófrægari borgum en London, Leeds, Hull, Manchester og Reading. Var þessum fyrirlestrum mínum jafnan vel tekið, þó talsvert hafi örlað á taugatitringi áheyrenda vegna þess hversu sláandi niðurstöður rannsókna minna eru.

En nóg um það. Tilefni þessara skrifa er sú ótrúlega tilviljun að á hverjum þeim stað er ég valdi mér til að hvíla lúin bein og brynna lífsmúsum eftir erfiðan dag vildi svo til að sama hljómsveitin lék á tónleikum það kvöldið. Var þar um að ræða hina alíslensku og mögnuðu Ske sem svo vildi til að var á tónleikaferðalagi um England.

Ég er ekki mikið fyrir rokkmúsík - og hefi aldrei verið - en hér er augljóslega eitthvað á ferðinni sem sker sig úr hinu venjulega graðhesta- og breimalæðurokki sem stöðugt er mokað í eyru heiladauðra ungmenna nú til dags. Enda er hér um að ræða sex karlmenn komna af léttasta skeiði sem hafa sér til fulltingis unga þokkadís sem lítið virðist gefa þeim eftir í tónlistarlegum þroska - þrátt fyrir ungan aldur.

Eftir því sem á ferðina leið og tónleikarnir urðu fleiri (og mér lærðist að setja hnetur í eyrun fyrir tónleika) tók ég að gefa tónlist hljómsveitarinnar meiri gaum og komst ég fljótt að því að hér væri ekkert venjulegt efni á ferð. Lögin eru af ýmsum toga, öll afar vel heppnuð hvert á sinn hátt. Flutningurinn var til fyrirmyndar í alla staði og ekki skemmir fyrir að hér er bersýnilega á ferðinni fólk sem hefir gaman af því sem það er að gera. Skilar það sér svo um munar til áhorfenda - jafnvel svo vel að undirritaður þurfti að sitja á strák sínum svo hann hæfi ekki að stíga nokkur létt dansspor við aðra tónleikagesti, en slíkt hefi ég lært að er trygging fyrir ófyrirhugaðri heimsókn á bráðamóttöku - ekki síst í Englandi.

Á efnisskránni voru ýmis lög af eldri plötu Ske í bland við ný lög af óútkominni plötu og hvet ég lesendur eindregið til að tryggja sér eintak af henni um leið og hún kemur í verslanir. Eldri plötuna reikna ég með að lesendur Baggalúts eigi fyrir, enda þeir þekktir fyrir smekkvísi og góða þekkingu á listum og menningu.

Fyrirlestrarferðir mínar hafa hingað til verið fjögurra stjörnu ferðir, enda ekki annað hægt þegar slíkur fyrirlesari leggur land undir fót með slíkt efni. Hljómsveitin Ske hífir þessa ferð hins vegar upp í fimm stjörnur og má það teljast nokkuð vel af sér vikið af rokkhljómsveit að fá meira en hálfa stjörnu hjá undirrituðum.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182