Lesbók07.05.02 — Enter

Kæru lesendur,
í gær áskotnaðist mér miði á æði nýstárlega sýningu í Laugarásnum. Er hér um að ræða uppsetningu á verki ritjöfursins David Koepp, þar sem hann færir forna ameríska þjóðsögu í nýjan búning. Koepp, sem færði okkur m.a. 'Óvinnandi veg' (Mission impossible), birtir okkur hér sögu utangarðsmanns sem þarf að kljást við mikla fötlun. Um er að ræða kunna mýtu; ungur, vel gefinn piltur, sem á framtíðina fyrir sér er áreittur af dýri og breytist á samri stundu í útskúfað skrímsli, sbr. Fílamann Lynch.
Er skemmst frá því að segja að Koepp á hér prýðisgóðan dag, þó hann toppi ef til vill seint heimspekilegt meistaraverk sitt 'Á dauða mínum átti ég von...' (Death Becomes Her).

Áður en ég fer nánar í útfærslu og fléttu myndarinnar vil ég minnast á leikstjóra þessarar sýningar, sem er hinn gifturíki hæfileikamaður Sam Raimi sem á að baki uppfærslur á borð við 'Rökkurræfilinn' (Darkman) svo ekki sé talað um hina ógleymanlegu leikframmistöðu hans í 'Tindursteinum' (the Flintstones). Hér er hann í banastuði og hefur alla þræði í hendi sér.

Hér er sumsagt sögð saga Péturs Parker, sem bitinn er af köflóttri könguló, eitraðri. Honum láist að leita læknisaðstoðar vegna anna og kemur því sjúkur heim og leggst til svefns. Þegar hann vaknar að morgni hefur hann öðlast eðli áttfætlunnar - er m.ö.o. orðinn að óvætti, úrkynjaðri blendingsveru. Við fylgjumst síðan með leið hans til glötunar, hvernig hann reynir að beisla nýja og ógeðfellda krafta sína og nýta þá öðrum til varnaðar.

Þessi hryggðarmynd er dável túlkuð af pervisna ungstirninu Tobey Maguire, sem þið minnist eflaust úr 'Hefnd Rauða Barónsins frá '94.
Mörg tár eru felld og er sjúkleg klæðskiptahneigð mannpöddunnar sérlega vel útfærð hjá þessum upprennandi leikara. Eins er dauðadæmd ást hans á tækifærisdrósinni Mary Jane sannfærandi þó að í túlkun Kirsten Caroline Dunst hafi Mary iðulega virst við að falla í svefn þegar hún ræðir við Pétur - sennilega er þar um að kenna mataræði stúlkunar, sem er orðin heldur horuð.

Hið hefðbundna hlutverk lærimeistarans, samvisku Péturs (sbr. samvisku Gosa), er bráðvel leyst af leikséníinu Willem Dafoe. Hér er hann í hlutverki grænklæddrar draumkenndrar veru sem reynir hvað hún getur til að kynna tragísku hálfmenninu þess rétta eðli - með litlum árangri.
Dafoe hefur að mínu mati ekki fengið nándar nærri nógu mikið að spreyta sig á sterkum siðferðisknúnum karakterum sem þessum - eða ekki síðan í hinni farsakenndu mynd Scorsese, 'Lokasprelli Krists' (Last temptation of Christ).

Eins og áður segir er leikstjórn hér með miklum ágætum, en myndin hefði ekki náð þeim hæðum sem raun ber vitni nema með sérlega vel útfærðum dansatriðum. Hrein unun er að fylgjast með Maguire þeytast milli skýjakljúfa og er ljóst að drengurinn hefur verið duglegur í danstímunum - og hvílíkt sjónarspil, ekki öfundaði ég myndatökumanninn að fylgja hreyfingum hans eftir þegar hamagangurinn var sem mestur. Ég hló óneitanlega með sjálfum mér þegar ég hugsaði til þess ef sagan hefði gerst hér heima - og vesalings ófétið hefði þurft að sveifla sér milli húsa í Þingholtunum.

Á heildina litið er þetta ágæt skemmtun - þetta er vissulega mikið drama, en mikilfengleg dansatriðin kalla oftar en ekki fram bros, jafnvel klapp. Maður fær litla samúð með hálfmenninu Pétri Parker, síklístruðum í spandexinu, enda er það tæpast ætlunin.

Þegar öllu er á botninn hvolft; hverjum líkar við köngulær?

 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 180, 181, 182