Lesbók18.05.04 — Enter

Nú er mér nóg boðið. Ég sit ekki lengur undir þessu fretblandna málæði öllu sem beint er að forsætisráðherra lýðveldisins. Að menn skuli voga sér. Að menn skuli dirfast.

Mér verður hreint út sagt ómótt af að líta inn í sali hins háa Alþingis og sjá þessa úrkynjuðu undanrennukrata og upplituðu roðamaura sperra sig þar upp á afturlappirnar, gjárífaða og fyllta eldmóði. Heimtandi höfuð Davíðs og útlimi alla á fati. Það held ég að þessi naðurtyngda hræsnisklíka öll ætti fremur að lúta höfði og kyssa bæði hnúa hans og tær, áður en hún spænir burt á ríkisstyrktum jeppunum í margmánað sauðburðarleyfið.

En nei. Þess í stað ryðst þetta hyski fram, æpandi ókvæðisorð að þeim sama manni og hefur rifið þessa þjóð áfram og upp á við, snýtt henni og skeint - og dröslað henni, nánast upp á sitt einsdæmi, yfir aldamótin sómasamlega útlítandi og frjálsri.

Já, því á meðan Evrópa hniprar sig getulítil og undanskorin saman í blóðugri bakraufinni milli austurs og vesturs - skagar Ísland enn fram líkt og stolt varta á hlaunum heimsins.

Og hverjum er það að þakka? Davíð Oddssyni.

Því segi ég áfram Davíð - og Davíð áfram.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182