Lesbók01.05.04 — Spesi

Síðastliðið föstudagskvöld brá ég mér af bæ og sótti tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en þar voru flutt verkin Metamorphosen eftir Richard Strauss og Sinfónía nr. 9 eftir Ludwig van Beethoven. Ludwig þessi var (eins og mörgum er eflaust kunnugt um) gersneyddur allri heyrn um það leyti sem hann samdi verkið og má það því teljast ótrúleg tilviljun hversu vel heppnað verkið er í alla staði.

Í stuttu máli sagt var flutningurinn hreint stórfenglegur. Hljómsveitin virtist láta afar vel að stjórn hins líflega Rumon Gamba. Sem er líka eins gott því hvað erum við annars að borga þeim fyrir? Einsöngvarar stóðu sig og með prýði, og nefni ég sérstaklega Kristinn Sigmundsson, en þarna er á ferðinni afar efnilegur bassi sem ábyggilega á mikið eftir að láta að sér kveða í framtíðinni.

Óperukór Garðars Cortes var traustur og þéttróma, en sem gamall áhugamaður um kórsöng komst ég ekki hjá að taka eftir því þegar konurnar "aðstoðuðu" karlana á hæstu tónunum. Í mínu ungdæmi hefði slíkt þótt fjarstæðukennt - jafnvel móðgandi - en hér eru augljóslega nútímamenn á ferðinni sem eru tilbúnir til að viðurkenna takmarkanir sínar. Hvort sem það telst nú kostur eða galli.

Það sem helst vakti þó athygli mína á tónleikunum var það sem átti sér stað þegar tónleikagestir voru komnir í sæti sín og búnir að koma sér vel fyrir. Þá - og ekki fyrr en einmitt þá - sá forseti lýðveldisins sér fært að mæta. Að sjálfsögðu þurfti almúginn þá að rísa á fætur til að leyfa manngreyinu að halda í þá trú að hann njóti allavega einhverrar virðingar. Þetta er (að sjálfsögðu) ekki í fyrsta skipti sem ég er viðstaddur athöfn sem forsetinn sækir og veldur þessi ítrekaða óstundvísi hans því að ég hef mikið velt fyrir mér hvort hann ætti ekki að ráða sér aðstoðarmenn sem láta hann vita af þeim atburðum sem honum ber að sækja með örlitlum fyrirvara!

Tónleikarnir sjálfir voru fjögurra stjarna virði, en vegna þessara leiðinda tafa neyðist ég til að draga eina frá. Þeir sem ekki eru sáttir við það mega hafa það til hliðsjónar við næstu forsetakosningar og velta fyrir sér hvort ekki væri ráðlegra að merkja X við Vigdísi.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182