Lesbók23.04.02 — Enter

Hann vandi þjóðina á koppinn, burstaði í henni tennurnar og breiddi yfir. Vatnsgreiddi þessu ódæla, unga lýðveldi á tyllidögum og ávítti það ef það gleymdi sér - og fékk verðlaun fyrir frá Svíum.

Halldór Laxness.

Hugsið ykkur bara. Þetta höfum við haft upp úr krafsinu; kroti, pári og hripi aldanna. Einn einasta, stakan og sérstæðan afreksmann. Hetju. Garp - og við eigum hann saman. En kunna allir að meta það sem þeir þó hafa? Nei. Neiónei og aldeilis hreinlega ekki.

Í gærkveldi álpaðist undirritaður til að kveikja á ólukkans sjónvarpsræksninu. Stóð þá yfir þáttur um títtnefndan Halldór. Þar sátu fýldir minnipokapennar í glópagullstólum útbelgdir af eigin ágæti, skjaldaðir slepjulegri uppgerðarhógværð - tuldrandi yfirlýsingar um það hvussu þessi bók hafi nú verið misheppnuð og hin illa útfærð.

Þetta þóttu mér og þykja fífl. Sjálfir lítið annað en súrnuð undanrenna Halldórs. Að voga sér. Að dirfast að krafsa í leiði gengins snillings með skítugum loppunum og míga yfir. Réttast væri að taka þessa ósvífnu málvillinga alla saman, girða niður um þá illþefjandi brækurnar og hýða duglega - helst með hertum saltfisk, ellegar kaktus.

Andskotann eigið þið með að níða Halldór? Hví mega persónur hans ekki tala torkennilega og fleyta meitluðum gullkornum til komandi kynslóða? - þær kunna þó fjandakornið íslensku, annað en síslettandi saxlendingasleikjur nútímans. Og þegar öllu er á botninn hvolft - hverjum er ekki heitt og innilega sama hvað stendur í bókum Halldórs frá Laxnesi?

Í Ameríku eiga menn góða afurð. Þar drekka menn göróttan galdradrykk sem svalar þorsta milljóna - ef ekki milljarða. Já, hér vísa ég í kjarnadrykkinn Kókakóla. Enginn skyni gædd skepna efast um gildi hans fyrir ameríska menningu! Enginn staldrar við hillur kjörbúðar og hugsar sig um áður en þessum svalandi miði er varpað í körfu. Nei - og enginn spyr - nokkurntíman - hvurn fjáran Kókakóla hefur að geyma.
Það skiptir heldur engu máli. Þetta er útvörður, sendiboði, þeldökk fjallkona með rauðan skúf og í peysu í stíl - og menn hafa vit á því að hnýsast ekki í hennar helgustu vé.

Halldór Guðjónsson frá Laxnesi er okkar litla kók í gleri. Brothætt og sjaldséð. Virðum það og látum hann í friði. Vertu sæll þú mikli meistari og hjartanlega til hamingju með afmælið.

Nú geturðu sent Enteri póst

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182