Lesbók10.03.04 — Enter

Mikið herfi- og hrikalega fara þessir bannsettu DVD-diskar í taugarnar á mér.

Maður er ekki fyrr búinn að klastra þessum andskota í gotraufina á spiladósinni og sestur í sófann - en myndin tekur að hökta og hristast eins og vændiskvendi á stórhátíðakaupi.

Þarna situr maður í svitakófi, öskrandi og æpandi á hinar og þessar hollívúddstjörnur og aðra seljabryta, sem ýmist standa grafkyrrir eða rjúka áfram og sleppa jafnvel heilu senunum.

Á maður að láta bjóða sér þetta?

Ekki veit ég hvort um er að kenna almennt bágu ástandi þessarar 'byltingarkenndu' tækni - eða hvort sjálf afspilunarvítisvélin er svona mikið bölvað drasl, þó aldeilis hafi hún nú kostað skildinginn.

Eitt veit ég þó - og það er að leigudiskarnir standa sig sýnu verst í stykkinu. Ég hef mátt taka ófáa slíka úr þverrifunni og pússað á þeim bakhlutann.

Og mér er spurn, hvað í ódrekkandi andremmu andskotans gerir fólk við þessa ræfils diska? Þeir eru ýmist rispaðir af miklu listfengi, klístraðir, kámugir eða útataðir í hinum einkennilegustu vessum.

Getur fólk ekki bara hundskast til að horfa á myndirnar í stað þess að nota þær sem borðbúnað, slefbakka eða skeinildi?

Mér er nóg boðið. Fyrr mun ég handsnúa gatslitnu eintaki af heildarverkum Hrafns Gunnlaugssonar, með tilfallandi brengluðum lúðrablæstri og fannfergi, en að leggja lag mitt aftur við þessa geilsavirku angan-afurð Kölska.

Og þið hin getið bara troðið þessum hljóm- og myndgæðum, tékkneska textanum og indversku talsetningunni upp í fagottið á ykkur.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182