Lesbók25.03.02 — Enter

Mér brá öðruvísi hér áður fyrr. Þá hrökk ég gjarnan í kút, varð reglulega hverft við og krossaði mig yfir heimsku og sérviskuhjali landa minna. Nú til dags lyfti ég eftilvill augabrún, fæ eilítin bjálfafiðring í maga, en ekki mikið meir en það. Því ég veit nú að ég bý meðal asna.

Evrópa er heiti smágerðrar, norðlægrar heimsálfu - sem helst telur það sér til tekna að þar fæddust þeir Mozart og Hitler - og þar var jú fyrsti sjúkrabíllinn tekinn í notkun. Annars heldur óspennandi skiki. Hafa þjóðir þessa heimshluta tekið sig saman og myndað dálítið bandalag - eins kyns saumaklúbb evrópuþjóða, sem heitir einfaldlega Evrópusambandið - og mörg ykkar þekkja af afspurn. Þetta er talsvert bákn og þar vinna fjölmargar kátar kempur við að útfylla eyðublöð, staðla grænmeti og sinna öðru smálegu. Gott og vel.

Þá að erindi mínu. Teikn eru á lofti. Nú vilja mínir mætu, skynugu landar vera memm í þessari pappírsumsýslu allri. Slefandi gjóa þeir sultaraugum að gullslegnum hunangsökrum handan hafsins. Halda sig vera að missa af geigvænlegum tækifærum - ómældum möguleikum. Já, sumir segja blákalt, skjálfandi röddu, að framtíð landsins sé í húfi. Svei mér þá. Já, svei mér þá alla daga, ár og aldir.

Æ þið bölvuð bévítans flón og öfugmælaræksni! Hvurn grænfyssandi vítisára ættum við að vilja sælda saman við Evrópusambandið?? Haldið þið virkilega að við sökkvum til botns í helkalda atlantsála ef við náum ekki bærilegum agúrkusamningum við Spánverja? Eruð þið þau flón að ætla að við verðum útlæg ger úr samfélagi þjóðanna ef við sleikjum ekki fýlu og annan ófögnuð úr belgískum stífflibbarassborum!? Hah, það sæi ég Jón Sigurðsson ganga á fund samanrekinna skrifstofufanga og hvá hvort hann mætti náðarsamlegast leggjast undir þá alla í skiptum fyrir hagstæðari viðskipti með franskan GEITAOST!!!

Nei nú skal ég segja ykkur, þið heilaþvegnu, heimóttarlyddur og dusilmenni; - við höfum ekkert að sækja í austurátt, höfum aldrei haft. Hvað varðar okkur um skakka turna, nautamorð, rauðvínsþembing og týrólabaul? Ekkert. Ekki neitt. Jújú, ykkur er velkomið að baka fjölskylduna endrum og sinnum á spænskum táfýluströndum. En það er nóg. Til þess þurfið þið ekki að selja afkomendur ykkar í þrældóm hjá spikuðum vindiltotturum, finnskum!

Væri máske nær - og nú þeyti ég hanska mínum í kunnuglegt andlit - að ganga á fund amerískra kollega þessara lítilsigldu brusselþvældu evrópuherra? Liggur ekki beint við, fyrst maður er á annað borð kominn á hnén og búinn að girða frá, að míga líka til vesturs? Ég skora á þig, minn elskaði ráðherra utanríkja og landráða, að kanna þann kristaltæra möguleika - í ljósi stöðu Íslands í umheiminum og heimsmála almennt - að Ísland verði tekið til alvarlegrar ígrundunar sem 51. fylki Bandaríkja Norður-Ameríku.

Takk.

 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 180, 181, 182