Lesbók01.01.04 — Enter

Góðir Íslendingar og aðrir landsmenn.

Ég ætla hér að fara fáeinum orðum um nýliðið ár, ár kindarinnar - árið 2003.

Tíðin var góð. Veður skapleg. Eldgos engin, jarðskjálftar fáir og aðrar jarðhræringar léttvægar og skaðlausar. Við vorum með öðrum orðum lygilega heppin, enn eitt árið.

Af þessum sökum fór mestur okkar tími í fánýtt veraldlegt amstur. Þras um peninga var áberandi, sérstaklega meðal þeirra sem sjá lítið af slíku fíneríi en langar í.

Skiljanlega.

Það er auðvitað óþolandi og ámælisvert að horfa upp á nýríka bankagelti og gíruga sparigrísi velta sér um í gullslegnum stíum sínum gegnblautir af blóðsýrðu kampavíni. Svoddan gjálífsgosar eiga að skammast til að fara leynt með það góss sem þeir fá kreist úr undirmálsfiskum lýðveldisins og vera ekki að glenna upp á sér kavíarfylltar bakraufarnar fyrir augunum á alminlegu fólki. Sannir íslenskir auðmenn hafa vit á að forðast flóðlýst leiksvið almúgans.

Á árinu var kosið til alþingis. Það reyndist vitanlega óþarft - og hafði þau áhrif ein að flæma strjálhærðu Sólrúnina úr ráðhúsi Reykvíkinga.

Þegar ljóst var að núverandi stjórn myndi sitja áfram náðu íslensk stjórnmál slíku sögulegu hámarki leiðinda að jafnvel Davíð Oddssyni var nóg boðið. Honum blöskruðu svo eigin yfirburðir að hann freistaðist til að bjóða dyggum en ögn treggáfuðum þjóni sínum að taka sæti forsætisráðherra hálft kjörtímabil eða svo - sennilega er það þó ekkert nema bragð til að sýna þjóðinni að óþarfi sé að vandræðast með fleiri en einn flokk í næstu ríkisstjórn.

Fleira? Við fórum í stríð. Unnum meir að segja, enda höfðum við til afnota stærsta og fullkomnasta her veraldar. Það munar um minna.

Þetta var annars ósköp óspennandi stríð, varla að maður héldi þræði í sjónvarpinu. Það merkilegasta í sögulegu tilliti var að innrásarliðinu var nú í fyrsta sinn fjarstýrt af heilabiluðum sjimpansapa, sem með guðlegri köllun til að skíthreinsa sandkassa heimsins komst bara bærilega frá sínu.

Annað var það ekki.

Ég óska ykkur öllum alls hins besta á nýju ári, ári apans.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182