Lesbók16.12.03 — Númi Fannsker

Jæja, þá eru þeir búnir að góma sjálfan Saddam Hussein austur í Babýlon. Dorguðu hann upp úr holu - eins og lunda. Skeggjaðan, skítugan, þreyttan lunda.

Og nú keppast menn við að hía á hann og kalla hann ræfilstusku og karlgrey og aula. Davíð Oddsson furðar sig á því að hann hafi ekki bara kálað sér og einhvernveginn finnst fólki hann hafa svikið það með því að hafa ekki falið blásýruhylki undir endajaxlinum.

Ekki var nú híað á Saddam í þá átta mánuði sem honum tókst að fela sig fyrir öflugasta her veraldar - og það í heimabæ sínum. Mér þætti gaman að sjá þá George Bush, Tony Blair og Davíð Oddsson grafa sig í jörð og liggja þar jafnvel vikum saman vegna sannfæringar sinnar og baráttuþreks.

Ekki misskilja mig - í mínum huga er Saddam Hussein viðurstyggilegur drullusokkur, og þetta fullyrði ég án þess að þekkja manninn nokkuð frekar en aðrir. Við skulum samt ekki afgreiða hann sem lúser og aumingja. Því hann er það ekki og við skulum heldur ekki gleyma hvaðan fréttirnar koma sem við lepjum hér upp eins og heilagan sannleik. Fréttirnar um gamalmennið og vesalinginn Saddam Hussein - aumingjann með horið, sem í ræfildómi sínum hefur tekist að fela sjálfan sig og gífurlegt magn gereyðingarvopna fyrir öflugasta og tæknivæddasta her veraldar í tæpt ár.

Hann er sagður ósamvinnufús og neita því að í landinu séu gereyðingarvopn - afhverju ætli það sé nú? Gæti hann nokkuð verið að segja satt - þessi bugaði, uppgefni aumingi og ræfill?

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182