Lesbók14.02.02 — Fannar Númason Fannsker

Nú stendur fyrir dyrum einhverskonar "prófkjör" vegna skipunar á framboðslista R-listans svokallaða hér í borg. Margir eru þar til kallaðir en fáir útvaldir eins og gefur að skilja. Tveir þeirra sem til eru kallaðir þykja allsigurstranglegir í þessari forkosningu og er það þeir Stefán Hafstein og Helgi Hjörvar. Stefán hefur helst unnið sér það til frægðar að móðga húsmæður í útvarpi, hnýta flugur (með afar misjöfnum árangri) og spyrja spurninga í sjónvarpi (sem hann getur ekki einu sinni svarað sjálfur). Helgi, hinsvegar, er margfaldur sigurvegari í MORFÍS, farsæll viðskiptajöfur og blindingi. Báðir eru þessir menn af góðum ættum eins og glöggt má sjá af nöfnum þeirra, og því líklegir til mikilla afreka í pólítík, og afar vinsælir. Það sem hefur hinsvegar gleymst í umfjöllun fjölmiðla og annarra um kosninguna, er að Stefán Jón er einfaldlega hrokafullur montrass, Helgi Hjörvar er öllu skemmtilegri maður en þó ekki meira en svo að meðalmaður þolir ekki mikið meira en 2-3 mínútur af bullinu í honum, enda er lífið ein ræðukeppni í hans huga. Þó má telja honum til tekna að hann er duglegur að leggja texta á minnið. Saman eru þessir menn svo leiðinlegir að jafnvel harðsvíruðustu áhugamenn um stjórnmál setur hljóða og veit ég þess dæmi að menn hafi kastað upp þar sem þeir kumpánar komu saman til skrafs og umræðna. Nú spyr ég, eins og álfur kannski: Hvar er Helgi Pé? Sá glansandi spéfugl. Þrútinn eins og rétt tæplega útsprungin rós, borinn rakagefandi áburði, syngjandi og trallandi. Hversvegna hefur hann yfirgefið Reykvíkinga á slíkri stundu?
Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið og vilja veg Reykjavíkur sem mestan, að skora nú á Helga Pé að bjóða sig fram til forystu í R-listanum, borginni, þjóðinni...já okkur öllum til góða!

Góðar stundir.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182