Lesbók31.01.02 — Enter

Kæru félagar, kunningjar og aðrir hatursmenn. Ég hef orðið var við gegndarlausa óvild í minn garð eftir lítinn pistling minn um handbolta - mínir góðu félagar á ritstjórn hafa varla yrt á mig og almenningur allur urrar á mig á götu. Gott og vel. Ég er föðurlandssvikari. Ég er hræsnari. Ég er kelling.

Eða hvað? Stundum líður mér illa - ég er hvumpin og kergjulegur, slælega upplagður og úfinn í skapi. Þá þykir mér gott að leita á náðir kvenna. - Og misskiljið mig ekki kæru lesendur, ég á ekki við þann sið að skríða í faðm sullaveikra portkvenna eða læða mér inn á nástrandir súluhofa. Nei. Mér finnst gott að glugga í létt hjal og gleðipískur, mér er unun að að súpa af misvitrum bollaleggingum og glennufjasi. Já - ég lít oft við á femin.is.

Ólíkt Fannari Fannsker er mér annt um þennan litla skika, þennan unaðsreit og aldingarð þar sem spakar meyjar hlaupa um og pensla tölvuskjáinn með ilmandi vísdómsorðum og sefandi speki.
Fátt róar mig meir en gaspur um matarkúra, málskrúð um sambandsslit - ó já, daðurórar og framjáhaldshvísl stilla mig og oftlega hef ég þakkað mínum sæla fyrir að þessar sírenur vefsins hafi náð að tæla mig í lund sinn. Og þá verður mér sama - sama þó handboltafasistar og þjóðrembuníðingar telji mig kellingu.

En hvað gerist? Himnarnir hrynja. - Á ögurstundu, meðan þjóð mín situr dáleidd, háir stríð við þýska þúsund ára ríkið og bónar í huganum geislabauga Ólafs helga og heilags Patreks.
Ég sit í einsemd minni og leita kyrrðar á ódáinsvöllum hinnar mildu Máríu [þ.e. Ellingsen]. Ég bið ekki um mikið - máske litla klausu um farða, hugleiðingu um skófatnað - jafnvel lítill hösl-stúfur væri nóg til að tempra mitt ólgandi hjarta.

En, nei. Mér er kastað úr Eden, grýtt í malbik hversdagsins svo glymur í.
Á vefnum - sem ég hef elskað svo heitt - blasir við ekkert nema grábölvaður og demónískur, alltumlykjandi, súrlyktandi, svarblábólginn, heljarsyrtur HANDBOLTI!

Ég gríp í örvæntingu um mús mína og skruna eftir þráðum, en hvert sem litið er má aðeins sjá gífuryrði og upphafningu "strákanna YKKAR". Ég tek andköf og tárin streyma niður vanga mína. Þær eru glataðar mér að eilífu. Ein óskar einhverjum jukkum góðs gengis [ sennilega einhver svartur galdur] meðan önnur hyggur á rauðvísdrykkju yfir einni djöflamessunni. Rauðvín með handboltaleik! Höfum við gersamlega snúið baki við siðmenningunni?!

Þegar ég hef grátið nóg, manna ég mig upp til að líta aftur á skjáinn. Ég forðast fjölfarnar slóðir og í öllum bænum hamingjunnar finn ég fljótlega lítið samtal um brjóstahaldara - og sofna tiltölulega vært frá því. En ég er ekki samur, ég hef misst trúna á hinn helming mannkyns. Ég stend einn eftir, fölur - kaldur. Guð varðveiti okkur öll.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182