Lesbók29.01.02 — Spesi

Nú eru allir að velta sér upp úr þessum handknattleik. Þetta er víst svo frábær íþrótt, líklega vegna þess að Íslendingar eru ekki handónýtir í henni eins og flestum vinsælum íþróttum. Veslings Enter hefir reynt að opna augu fólks fyrir þessu en hlýtur fyrir tómar skammir frá félögum okkar, Herberti og Núma. Enda er víst bannað að níða það sem er vel gert og myndi þá líklega einu gilda þó við Íslendingar stunduðum með góðum árangri saurlát sem íþrótt. Í því tilfelli væri það líklega talin mest allra íþrótta og gott ef undirritaður væri ekki bara heimsmeistari.
Sjálfur hefi ég litla skoðun á handknattleik. Ýmislegt má gera til að stytta sér stundir og er gott og blessað að horfa á þessa íþrótt eins og hverja aðra (að undanskildum borðtennis). Hins vegar skulum við ekki gleyma því að handknattleikur verður seint talin með mestu íþrótta heims.

Eftir því sem ég kemst næst eru Frakkar heimsmeistarar um þessar mundir. En eru þeir eitthvað að reyna? Ó nei. Þeim er alveg sama. Þeir ákváðu í samráði við Svía, Þjóðverja og fleiri þjóðir - þjóðir sem allar eru betri en Íslendingar í handknattleik - að þeir skyldu bara að sjá um titilinn núna.

Svíar vinna Íslendinga reglulega með hangandi hendi, en hafa í rauninni miklu meiri áhuga á knattspyrnu og íshokkí. Þeir sem leggja stund á handknattleik þar í landi eru þeir sem vegna fötlunar gátu ekki spyrnt knetti eða haldið jafnvægi á skautum.

Í Þýskalandi fær varamarkvörður í varaliði þriðjudeildarliðs í knattspyrnu hærri laun en aðkeyptur markaskorari í úrvalsdeild í handknattleik. Þar í landi nýtur knattspyrnumaðurinn virðingar, en handknattleiksmaðurinn verður nýttur í fallbyssufóður í næstu styrjöld (sem er ekki langt undan, ef ég skil þýsku rétt).

Hér á landi eru handknattleiksmenn hins vegar í guðatölu. Strákarnir okkar eru yfir alla gagnrýni hafnir, alla vega þangað til þeir snúa aftur heim að keppni lokinni, með skottið milli lappanna eftir leiki við þjóðir sem niðurlægja þá með því einu að mæta til leiks og skoppa aðeins um.

Kæru vinir. Ég vil ekki vera of harðorður í garð þessarar íþróttar sem, eins og áður sagði, ég hefi litla skoðun á. Látum hjá líða þó bitrir uppgjafarleikmenn eins og Enter hripi niður skoðun sína, þó hún sé röng. Ég bið aðeins um þetta: Tökum handknattleikinn niður af stallinum svo við getum forðað okkur frá frekari niðurlægingu.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182