Lesbók02.10.03 — Spesi

Baggalútur flytur fréttir af sannleikanum. Honum kann hver að vera sárastur og er það miður, en sannleikur er hann öngvu að síður.

Við opinberun sannleikans vill stundum gerast að einhverjir beri skarðan hlut frá borði. Slíkt er bagalegt, en öngvu að síður óumflýjanlegt. Í slíkum tilfellum vill gerast að viðkomandi (eða aðstandendur þeirra) kenni fréttamanni um hvernig komið er, eins og hann beri ábyrgðina. Ekkert gæti verið fjarri sanni!

Skemmst er að minnast fyrrverandi alþingismanns og núverandi fanga sem fáraðist heilmikið yfir fjölmiðlaumfjöllun um sig og vildi varpa ábyrgðinni yfir á fréttamenn. Kallaði þá mannætur og ýmsum öðrum nöfnum. Ekkert af þessu gerði sök hans minni - þó ekki virðist sem hann geri sér grein fyrir henni enn né sýni vott af iðrun, en það er önnur saga.

Allar götur síðan Jesús Kristur gekk þessa jörð (og jafnvel fyrr) hefir mönnum verið tamt að lífláta sendiboðann ef hann gerist svo grófur að flytja þeim skilaboð sem er þeim ekki að skapi. Og hvað græða þeir á því? Eftir slíka framkomu standa þeir uppi með alveg jafn slæm skilaboð, auk þess sem þeir eru einum sendiboða færri og þurfa að auglýsa eftir nýjum.

Liverpool tapaði um síðustu helgi gegn Charlton – ekki fór ég og lúskraði á Arnari Björnssyni með golfkylfu. Náinn samstarfsmaður minn benti mér í gær á að ég væri andfúll – ekki setti ég rottueitur í kaffið hans. Þetta voru staðreyndir og tilvist þeirra ekki viðkomandi sendiboðum að kenna.

Ef okkur eru fluttar staðreyndir ber að fagna því að okkur sé sagður sannleikurinn yfirleitt, þó hann sé kannske ekki sá sem við vildum heyra. Víða í heiminum býr fólk við engar upplýsingar nema þær sem því er skammtað af ráðamönnum. Viljum við kannske hafa hlutina frekar þannig? Fá bara fréttir af því þegar Davíð segir brandara eða Ingibjörg Sólrún dettur á rassinn? Ekki fyrir mig, takk.

Hættum nú þessari vitleysu! Sannleikurinn er sagna bestur, þó oft svíði undan honum. Fordæmum ekki þann sem flytur okkur slæmar fréttir, heldur fögnum honum sem þeim verðmæta einstaklingi sem hann er - einstaklingi sem þorir að segja okkur sannleikann um okkur sjálf.

 
Spesi — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Dr. Herbert — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Spesi — Forystugrein
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Myglar — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 9, 10, 11