Lesbók28.08.03 — Kaktuz

Fyrir norðan Hringbraut, vestan við gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu liggja nokkrar götur sem margir hafa nefnt Harlem okkar Reykvíkinga. Ekki vegna þess að þar hafi nokkurn tíman þrifist heillandi djassklúbbar né heimsfrægt körfuknattleikslið. Ekki er heldur verið að vísa til hinnar fornfrægu borgar Haarlem í Niðurlöndum. Nei, þegar menn tala um hið íslenska Harlem er verið að vísa til hinnar miklu óreglu, siðspillingar og andlegs slens sem þar þrífst. Þar kúra drungaleg hús í lágum röðum sem endurspegla þann anda dugleysis sem liggur yfir öllu. Þar býr mikið af mesta ógæfufólki okkar tíma. Fólk sem hefur snúið baki við upplýsingu nútímans. Þetta fólk dregur margt fram lífið á bótum og gjafmildi betri borgara bæjarins milli þess sem það grúskar í úreldum skruddum hugvísindanna.

Í gærkveldi varð ég því miður að gera mér ferð þangað norður eftir (en ég bý að sjálfsögðu sunnan Hringbrautar) til að aðstoða gamlan skólafélaga. Sá hefur fyrir löngu leiðst inní heim hugvísinda og andlegrar hnignunar. Ég hef samt reynt að sinna honum eftir bestu getu, enda hressandi að geta rétt þeim sem eru minni máttar hjálparhönd. Ég tel það jafnvel þroskandi og hollt að þekkja þessa hlið mannlífsins enda kennir það manni að vera þakklátur fyrir sitt.

Þegar ég kom inní íbúðina var þar allt á rúi og stúi enda greinilega ekki verið tekið þar til hendinni svo vikum skipti. Gamli vinur minn var að reyna að koma upp snaga til þess að geta að minnsta kosti hengt upp fötin sem lágu annars öll á gólfinu. Til þess hafði hann boðað mig. Til þess að koma skrúfu í vegg. Ég fann í fyrstu til með honum að ráða ekki við þetta sjálfur en snaraði svo fram verkfæratöskunni sem ég hafði meðferðis og afgreiddi málið.

Þegar ég var búinn var mér boðið að setjast niður í þröngt eldhúsið og þiggja þar kaffibolla en er ég sá drulluskánina á leirtauinu þar afþakkaði ég boðið. Samt þáði ég að viðskilnaði nokkrar kartöflur úr garði þessa ógæfumanns. Er ég gekk svo suður yfir Hringbrautina fór ég með dulitla bæn til að þakka fyrir þá miskunn drottins að búa réttu megin við götuna.

 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... 9, 10, 11