Lesbók23.08.03 — Spesi

Mér er ekkert um óperur gefið. Þekking mín á þeim er þó allmikil og er það máske þess vegna sem ég hefi hingað til haft vit á því að forðast þær sem heitan eldinn. Má því segja að það hafi verið undantekning á reglu að ég lét tilleiðast - að áeggjan góðvinar míns - að berja augum og eyrum Krýningu Poppeu eftir Monteverdi í flutningi Sumaróperunnar í Borgarleikhúsinu.

Söguþráður verksins er í stuttu máli sá að Neró keisari í Róm heldur fram hjá konu sinni Ottaviu með hinni fögru Poppeu. Eiginmaður Poppeu, Ottano að nafni, er harmi sleginn og leitar í fang Drusillu, sem lengi hefir þráð hann. Eftir misheppnað banatilræði Ottanos - samkvæmt skipun Ottaviu - gegn fyrrum konu sinni eru þau öll þrjú send í útlegð af Neró, sem umsvifalaust gengur að eiga Poppeu. Öllu þessu er svo stjórnað af ástarguðinum Amor sjálfum. Boðskapurinn er sumsé: Þeir sem svíkja, stunda hórdóm og lífláta aðra eiga allt gott skilið (og fá það), en hinir sviknu fara í útlegð úr Róm og mun ástarguðinn sjá til þess að svo verði. Ekki mjög í takt við óskhyggju okkar tíma, en þó máske nokkuð raunsætt.

Leikmynd, ljós, búningar og leikmunir eru aðstandendum sýningarinnar til sóma. Þó er augljóst að lítið fjármagn hefir verið milli handa þeirra og kemur það helst fram í förðun, en svo var sparað til hennar að aðeins var farðaður hluti andlita sumra flytjendanna. Þá er einnig farið sparlega með nótur, en í þeim hendingalokum þar sem í mínu ungdæmi hefði verið til siðs að fara með nokkrar vel valdar trillur, láta flytjendur sér nægja að gefa frá sér einhvers konar stamhljóð. Vakti það ómælda kátínu mína, en hvort veigarnar sem ég dreypti á fyrir sýningu og í hléi hafi eitthvað haft með það að segja skal liggja milli hluta.

Hljómsveitin lék af stakri prýði og þó lítil væri náði hún að framkalla mikinn hljóm. Sérstaklega var áberandi gítarleikari nokkur sem lék meðal annars á einhvern lengsta gítar sem ég hefi augum barið.

Það gustar af Hrólfi Sæmundssyni í hlutverki Nerós. Hann túlkar hinn sturlaða keisara á afar magnaðan hátt - og með alveg einstaklega brjálæðislegum svipbrigðum - og eru allar hans gjörðir framdar af stakri geðveiki, hvort sem það er að segja ráðgjafa sínum til syndanna (nú, eða láta lífláta hann), hlakka yfir eigin gæfu eða fullnægja holdlegum fýsnum sínum, meðal annars á Poppeu. Valgerður Guðnadóttir er lífleg og eggjandi sem lævíst tálkvendið Poppea á meðan Nanna Hovmand túlkar hina kokkáluðu og hefnigjörnu Ottaviu af stóískri fagmennsku. Kontratenórhlutverk Ottanos er flutt af geldingnum Owen Willetts og gerði hann því einkar góð skil. Þá er vert að minnast hermanna Nerós, en þeir Ólafur Rúnarsson og Stefán Helgi Stefánsson eru einkar kómískir í hlutverkum sínum og liggur mér við að líkja þeim við mína fornu félaga Gög og Gokke, svo gaman hafði ég af frammistöðu þeirra. Aðrir flytjendur standa sig einnig vel og er gaman að sjá að æska landsins skuli ekki öll hanga á Hlemmtorgi að hrekkja saklaus gamalmenni.

Sumarleikhúsið er nú á öðru starfsári sínu og á óperustjórinn Hrólfur Sæmundsson allt hrós skilið fyrir þetta framtak sitt. Krýning Poppeu er skemmtileg og fagmannlega unnin sýning, full af gáskafullri - og á köflum æsandi - kímni. Get ég því (þrátt fyrir að kunna frekar illa við óperur) óhræddur mælt með sýningunni við hvern sem er. Athugið þó að best er fyrir þá sem ekki beinlínis elska óperur að undirbúa sig eins og ég geri ávallt: Einn fyrir sýningu og einn í hléi.

 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... , 180, 181, 182