Lesbók01.06.01 — Númi Fannsker

Sá ósiður manna að veitast að sakleysingjum vegna skoðanna þeirra virðist nokkuð algengur hér á landi. Sífellt heyrir maður af fólskulegum árásum launmorðingja "sannleikans", sem af illsku sinni og hugsanaþrengslum ráðast á sér minni máttar í örvinglaðri leit að fyllingu. Ekki hyggst ég leggjast í slíka umræðu, en langar aðeins að benda á hvurnig samfélag vort engist sundur af þvermóðskufullum, andans aumingjum sem naga bein lýðræðisins að mergi. Slík menningarleg hryðjuverk eiga ekki heima meðal siðaðra þjóða, þess háttar húmbúkk væri helst mátulegt á skrælingaþjóðir í suðri, en ekki skynsamt fólk eins og hér býr. Gleymum ekki hversu þröng sýn getur villt um fyrir mönnum á göngu þeirra um samfélagsins breiðgötur. Einblínum ekki á flísina í rauðsprengdu auga náungans, sláum heldur bjálkann úr okkar eigin! Bjálkar eru jú efniðurinn sem reisa má úr heilar borgir, sem hýst geta menningu og drauma allra lifandi þegna þessa lands, sem af ást sinni á tungu, landi og gæðum þess hafa lapið dauðann úr skel danska auðvaldsins og nú hins bandaríska sem læsir biksvörtum krumlum sínum um hjarta Íslands. Og svo er kreist! Og fjallkonan engist um sem hái hún dauðastríð sitt við hið andlega krabbamein sem henni hefir verið byrlað. Gleymum ekki sjálfstæðisbaráttunni, munum Fjölnismenn og þeirra líka. Látum ekki erlent auðvald taka okkur í bakaríið.

Góðar stundir

 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... , 180, 181, 182