Lesbók08.08.03 — Númi Fannsker

Árni Johnsen athafnamaður og kennari tróð sér í kastljós fjölmiðla eins og honum er einum lagið fyrir verslunarmannahelgina. Árna Johnsen þykir nefnilega fátt skemmtilegra en sundsprettur með mannætuhákörlunum sem lögðu líf hans í rúst með takmarkalausri grimmd sinni og blóðþorsta. Sérstaklega er skemmtilegt að afleysingatrúður sá sem hljóp í skarðið fyrir Árna á Þjóðhátíð skyldi vera sjálf ókindin – formaður blaðamannafélagsins.

Það er ljóst að Árni Johnsen situr hvorki með hendur í skauti né fingur í nefi í tukthúsinu að Kvíabryggju. Frægt er t.d. þegar hann af sinni alkunnu tækni í mannlegum samskiptum, samdi um nýjar rúmdýnur fyrir sjálfan sig og samfanga sína – enda voru dýnudruslurnar í fangelsinu ekki föngum bjóðandi, hvað þá Árna Johnsen. Guð má vita hversu margir þyrftu að þjást af bakverkjum og vöðvabólgu ef ekki hefðu komið til persónutöfrar hans og samskiptahæfileikar. Svo vill hann líka bæta aðgengi ferðamanna við Grundarfjörð og hafa Grundfirðingar þar eignast öflugan talsmann, það er mikil guðsblessun fyrir þá.
Eflaust hefur Árni líka verið duglegur að æfa sig á gítarinn, sögur herma að jafnvel fjórða gripið hafi litið dagsins ljós. Að minnsta kosti taldi hann sig reiðubúinn að halda uppi fjörinu á Þjóðhátíð eina ferðina enn. Svo reiðubúinn var hann að hann gaf skít í lög og reglur um réttindi og skyldur dæmdra glæpamanna. Árna Johnsen þykir það nefnilega helvíti skítt að fá ekki að troða upp á fylliríshátíð í Vestmannaeyjum bara vegna þess að hann var dæmdur til að dúsa í fangelsi yfir eina verslunarmannahelgi. Eina. Hann kemst ekki á þjóðhátíð í eitt skipti og þá er nú fokið í flest skjól. Enda vandar Árni þeim sem standa á bakvið þessa aðför að honum - þessar nornaveiðar – ekki kveðjurnar. Dómsmálaráðherra og fangelsismálastjóri eru “pakk” og “leiðindapúkar” sem nota vald sitt til að níðast, ekki bara á Árna Johnsen, heldur á öllum Þjóðhátíðargestum og sjálfsagt öllum landsmönnum – gott ef ekki heimsbyggðinni, með því að meina Árna Johnsen, skemmtikrafti og kennara að syngja Krummavísur í Herjólfsdal. Eina helvítis ferðina enn!

Við skulum þakka ráðherra og fangelsismálastjóra fyrir staðfestuna – við skulum þakka þeim fyrir að fara að lögum, þakka þeim fyrir að hleypa ekki dæmdum glæpamönnum á fyllerísfjölskylduhátíðir vítt og breitt um landið. Og við skulum þakka fyrir Marshall-aðstoðina sem barst á elleftu stundu í brekkunni í Herjólfsdal.

Við skulum líka vona að tukthússvist Árna Johnsen kenni honum á endanum að skammast sín fyrir glæpi sína – jafnvel iðrast.

 
Spesi — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Dr. Herbert — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Spesi — Forystugrein
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Myglar — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 9, 10, 11